Sérsniðið námskeið fyrir forstöðumenn um sameiningu stofnana og starfseininga
Félag forstöðumanna ríkisstofnana í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands býður upp á sérsniðið námskeið fyrir forstöðumenn ríkisstofnana undir yfirskriftinni Bestu aðferðir við sameiningu stofnana og starfseininga. Hvað skilar árangri, hvar liggja hætturnar- fræðin og reynsluþekkingin? Námskeiðið verður haldið mánudaginn 3. október 2011 kl. 12.15 til 16.00. Nánari upplýsingar og skráning hér.
Félag forstöðumanna ríkisstofnana
í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands býður upp á
Sérsniðið námskeið fyrir forstöðumenn ríkisstofnana
Bestu aðferðir við sameiningu stofnana og starfseininga
Hvað skilar árangri, hvar liggja hætturnar- fræðin og reynsluþekkingin ?
mánudaginn 3. október kl. 12:15-16:00
Staðsetning: Húsnæði Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands við Dunhaga.
ÞÁTTTAKENDUR: Forstöðumenn ríkisstofnana + ef vill, einn lykilstjórnandi með forstöðumanni.
Leiðbeinendur: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild HÍ og Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Gestafyrirlesarar: Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðskrár Íslands og Steinunn Halldórsdóttir, stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu.
Skráning hér Verð 18.500,-
Veruleg umskipti hafa átt sér stað í starfsemi opinberra stofnana á síðustu misserum og eru fleiri breytingar í farvatninu, m.a. sameiningar stofnana og starfseininga. Árangursrík sameining á starfsemi útheimtir viðamikinn undirbúning, upplýsingamiðlun, samræður, málamiðlanir og eftirfylgni. Sumar aðferðir reynast vel en aðrar síður. Af hvoru tveggja má draga lærdóm.
Á námskeiðinu sem er sérskipulagt fyrir forstöðumenn opinberra stofnana og staðgengla þeirra verður sjónum sérstaklega beint að bestu aðferðum við sameiningu stofnana og starfseininga. Kynnt verða tæki sem hjálpa stjórnendum að greina þætti sem standa í vegi fyrir árangri og auðvelda þeim að taka nauðsynlegar ákvarðanir til að sameining eða aðrar veigamiklar breytingar í starfseminni skili góðri niðurstöðu. Fjallað er um bestu leiðir til að ná árangri, hvernig greina má og yfirstíga hindranir og rætt um hlutverk stjórnanda. Kenningar og aðferðir breytingarstjórnunar með áherslu á hagnýtar lausnir eru notaðar til grundvallar, auk þess sem byggt er á reynsluþekkingu. Lögð er áhersla á að forstöðumenn fái tækifæri til að leiða saman bækur sínar um árangursríkar úrlausnir við flókin viðfangsefni.
Leiðbeinendur byggja á langri reynslu við ráðgjöf til stjórnenda á tímum breytinga og stjórnendur sem hafa reynslu af sameiningu stofnana.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Helstu rannsóknarsvið hans eru á sviði vinnumarkaðsfræði þ.m.t. mannauðsstjórnunar og samskipta á vinnumarkaði. Hann hefur m.a. ritað greinar um breytingastjórnun og fyrirtækjamenningu. Gylfi er stjórnmálafræðingur og með meistaragráðu í vinnumarkaðsfræði (Industrial Relations). Hann hefur m.a. starfar við ráðningarráðgjöf hjá Hagvangi og stjórnendaþjálfun hjá IMG. Gylfi hefur kennt breytingastjórnun í MBA námi og meistaranámi í viðskiptafræði síðustu ár.
Guðrún Ragnarsdóttir er framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun breytinga en sl. 15 ár hefur unnið að ýmsum verkefnum á því sviði m.a. sem gæðastjóri hjá Landsvirkjun, forstöðumaður gæðastjórnunar hjá Íslandsbanka og sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs BYKO. Guðrún er viðskiptafræðingur og MBA. Hún hefur jafnframt starfað við ráðgjöf, námskeiðahald og skrifað greinar um stjórnun. Guðrún var formaður Stjórnvísi 1999-2001 og formaður dómnefndar Þekkingarverðlauna FVH 2010 og 2011.
Haukur Ingibergsson er forstjóri Þjóðskrár Íslands. Hann stýrði m.a. sameiningu Fasteignaskrár og Þjóðskrár undir einn hatt . Hann hefur langa reynslu af stjórnun, rekstri, kennslu og opinberri stjórnsýslu. Hann er með BA gráðu í landafræði og sagnfræði, er cand mag. í sagnfræði og með próf til kennsluréttinda.
Steinunn Halldórsdóttir er sérfræðingur i forsætisráðuneytinu. Hún stýrði m.a.verkefnisstjórn um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands árin 2007 og 2008 í umboði rektora skólanna. Áður starfaði hún í 7 ár sem sérfræðingur hjá Ríkisendurskoðun við gerð stjórnsýsluúttekta og í 5 ár hjá Tækniháskóla Íslands sem sameinaðist HR á árinu 2005. Steinunn er stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur.
Hugtakið „nýsköpun“ hefur einna helst verið tengt starfsemi sprota- og frumkvöðlafyrirtækja á einkamarkaði. Nýsköpun í opinberum rekstri er hins vegar mjög þýðingarmikil, vegna umfangs hins opinbera og verkefna sem unnin eru í almannaþágu. Opinberar stofnanir þurfa stöðugt að leita nýrra leiða til að mæta nýjum þörfum samfélagsins og aðlaga starfsemi sína að breyttum efnahagslegum aðstæðum. Stjórnendur og starfsfólk opinberra stofnana beita hugkvæmni og leita stöðugt nýrra leiða til að leysa verkefni sín í þágu samfélagsins. Í nýrri norrænni rannsókn kemur fram að um 90% opinberra stofnana á Íslandi stunda nýsköpun af einhverju tagi. Þetta bendir til mikillar grósku og að mörg tækifæri séu nýtt til umbóta í opinberum rekstri. Þessi nýsköpunarverkefni þarf að gera sýnileg og kynna öðrum til eftirbreytni
Ráðstefna og málþing um nýsköpun í opinberum rekstri er afrakstur samvinnu fjármálaráðuneytisins, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Rannís, en þessir aðilar tóku höndum saman um að draga athygli að nýsköpun og þróunarverkefnum í starfsemi hins opinbera og stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri á Íslandi. Síðsumars var sent erindi til forstöðumanna ríkisstofnana, þar sem óskað var tilnefninga um verkefni frá ríkisstofnunum til nýsköpunarverðlauna í opinberum rekstri. Skilafrestur var til 1. október s.l. og bárust 40 tilnefningar um nýsköpunarverkefni frá 24 stofnunum. Eitt þeirra hefur verið valið til nýsköpunarverðlauna í opinberum rekstri og þrjú til viðbótar fá sérstaka viðurkenningu á ráðstefnunni. Átján verkefni hafa verið valin til kynningar á málþingi sem haldið verður að lokinni ráðstefnu kl. 10:45-12:15.
Á ráðstefnunni mun Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra ræðir áherslur stjórnvalda í nýsköpun og umbótum í opinberum rekstri og afhendir verðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberum rekstri. Þá fjallar Ómar H Kristmundsson, prófessor í stjórnsýslufræðum um mikilvægi nýsköpunar- og þróunarvinnu hjá hinu opinbera og hann opnar upplýsingaveitu um nýsköpun í opinberum rekstri. Þorsteinn Gunnarsson, sérfræðingur hjá Rannískynnir niðurstöður nýrrar rannsóknar á nýsköpun í opinberum rekstri á Norðurlöndum sem unnin var á vegum Nordisk Innovation Forum og að lokum ræðir Edwin Lau, sérfræðingur hjá OECD áherslur stofnunarinnar um nýsköpun í opinberum rekstri. Nýsköpun í opinberum rekstri- alþjóðlegar áherslur. 45 mín.
Á málþinginu munu eftirtaldar stofnanir kynna nýsköpunarverkefni sín sem valin voru til kynningar á málþinginu: Lögreglustjórinn á Hvolsvelli, Blindrabókasafn Íslands, Matvælastofnun, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem mun kynna 3 verkefni, Landspítalinn sem kynnir 2 verkefni, Ríkiskaup, Framkvæmdasýsla ríkisins, Háskólinn á Akureyri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landmælingar Íslands, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Vegagerðin, Þjóðminjasafn Íslands og Fiskistofa. Fyrirlesarar munu m.a. ræða hvernig hægt er að yfirfærar hugmyndir nýsköpunarverkefna á önnur svið opinberrar starfsemi.