Í grein Helgu Þórisdóttur, formanns stjórnar FFR og forstjóra Persónuverndar, sem birtist í Morgunblaðinu 13. mars síðastliðinn, er áréttað að stjórnvöld starfa á grundvelli laga sem Alþingi samþykkir hverju sinni og að valdi fylgi ábyrgð. Greinin er svohljóðandi:
Valdi fylgir ábyrgð.
Undanfarið hefur farið fram umræða um að of miklar álögur séu lagðar á fyrirtæki af hendi stjórnvalda. Í þeirri umræðu hafa sumir haldið því fram að eftirlitsstofnanir fari offari. Miklu skiptir hér að gera sér grein fyrir því að stjórnvöld starfa á grundvelli laga, sem Alþingi samþykkir hverju sinni. Með öðrum orðum þá mega stjórnvöld einungis gera það sem lög heimila þeim að gera. Það þýðir að þau stjórnvöld sem samkvæmt lögum eiga að sinna eftirliti, verða að geta vísað í lagagreinar til að réttlæta sín störf.
Stjórnvöld eru m.a. bundin af stjórnsýslulögum, og eiga í sínu starfi að huga að ýmsum reglum sem þar er að finna. Má þar nefna að þau eiga að gæta jafnræðis í sínum niðurstöðum, rannsaka mál nægilega vel, veita aðilum máls andmælarétt, afgreiða mál sín eins hratt og unnt er, og huga að meðalhófi. Sumar stofnanir eru undirmannaðar, þ.e. þurfa að sinna fleiri málum en þær ráða við. Þetta hefur lengi verið staðreyndin í íslenskri stjórnsýslu, þar sem starfsmenn hér þurfa iðulega að sinna mörgum málaflokkum – og hafa þar með fleiri hatta en kollegar á nágrannalöndunum. Þessi staða getur skapað mikið álag í stjórnsýslunni og útskýrir stundum hversu langan tíma getur tekið að afgreiða mál. Heilt yfir verður að telja að málin gangi ágætlega á flestum stöðum. En valdi fylgir ábyrgð, og ef upp koma hnökrar þá þarf ætíð að staldra við og sjá hvað má betur fara. Reyna þannig að læra af mistökum og gera betur næst.
Helga Þórisdóttir.
Höfundur er forstjóri Persónuverndar og formaður stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR).