Fréttabréf FFR 5. tbl. júní 2018

Ágætu félagsmenn.

Ég þakka það traust sem þið sýnduð mér með því að velja mig til forystu í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana á aðalfundinum nú fyrir skömmu.  Félagsins bíða fjölmörg krefjandi verkefni á næstunni.  Raunar vissi ég það þegar ég óskaði eftir umboði ykkar til þess að leiða félagið en frekari kynni af stöðunni, eins og hún blasir nú við, staðfesta það.

Félaginu er ætlað mikið hlutverk við innleiðingu á nýju ferli við grunnmat á launum forstöðumanna nú þegar kjararáð hefur verið lagt niður og það er ljóst að mörg álitamál eiga þar eftir að koma upp.  Mikilvægt er að allir félagsmenn séu virkir í þeirri samræðu, sæki samráðs- og upplýsingafundi og mun stjórn félagsins reglulega miðla upplýsingum um hvernig þessi mál þróast.  Mikil vinna hefur þegar átt sér stað en ferlið er hægfara og ákvarðanir láta bíða eftir sér.  Á meðan rýrna laun félagsmanna svo að algerlega óásættanlegt er.

Önnur verkefni bíða stjórnarinnar einnig, svo sem að örva fræðslu og starfsþróun meðal félagsmanna og bæta ímynd og traust borgaranna á stjórnsýslunni og forystu hennar.  Félagsmenn eiga líka að geta treyst á stuðning og ráðgjöf félagsins í einstaklingsbundnum ágreiningsmálum sem þeir eiga við sín ráðuneyti og félagið þarf að móta starfsreglur þar að lútandi.

Ég vona að félagsmenn njóti sumarsins og hafi tækifæri til að taka sér leyfi frá störfum amk. nokkra sumardaga, til þess að byggja upp starfsorkuna.  Hennar er mikil þörf í stjórnsýslunni.

Með sumarkveðju,

Gissur Pétursson formaður.

 

Ný stjórn FFR

Á aðalfundi FFR, sem haldinn var 30. maí sl., var Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, kjörinn formaður stjórnar FFR. Í stjórn voru einnig kosin Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, og Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, og Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, sitja áfram í stjórn, sbr. 6. gr. laga FFR.

 

Kjararáð fellt niður

Þann 11. júní sl. samþykkti Alþingi að leggja kjararáð niður og tekur breytingin gildi næstu mánaðarmót. Í ákvæði til bráðabirgða segir að málum einstakra aðila sem falla undir ákvæði 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem eru til meðferðar hjá kjararáði fyrir gildistöku laganna, skuli lokið samkvæmt ákvæði 39. gr. a laga nr. 70/1996. Ráðherra og hlutaðeigandi fagráðherra skulu hafa lokið launaákvörðun þessara aðila eigi síðar en sex mánuðum frá því að lögin tóku gildi. Launaákvarðanir til hækkunar sem teknar eru eftir þann frest skulu vera afturvirkar frá 1. janúar 2019.

Samkvæmt upplýsingum frá kjararáði bíða tugir mála frá forstöðumönnum opinberra stofnana afgreiðslu kjararáðs. Samkvæmt nýsamþykktum lögum mun kjararáð ekki taka ákvörðun um laun þessara aðila, heldur skal málum viðkomandi forstöðumanna lokið á grundvelli 39. gr. a laga nr. 70/1996.

 

16 samtök og stofnanir ræða framhald #metoo

Í síðustu viku hittust fulltrúar 16 samtaka, stofnana og félaga á fundi til að hafa með sér samstarf til að fylgja eftir þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í kjölfar #metoo byltingarinnar þegar konur stigu fram og sögðu frá kynbundnu ofbeldi og kynferðislegu áreiti á vinnumarkaði.

Á fundinum var meðal annars rætt um til hvaða aðgerða hefur þegar verið gripið og möguleika til samstarfs varðandi næstu skref. Áhersla verður lögð á samvinnu og úrbætur sem geta nýst sem flestum á vinnumarkaði, s.s. með gerð fræðsluefnis og með því að vinna leiðbeiningar um hvernig bregðast eigi við áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði.

Þeir sem taka þátt í samstarfinu, auk FFR,  eru Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bjarkarhlíð – miðstöð þolenda ofbeldis, BSRB, Félag kvenna í atvinnulífinu, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, Kvenréttindafélag Íslands, Mannauður – félag mannauðsfólks, Samband Íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Sálfræðingafélag Íslands, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK starfsendurhæfingarsjóður.

 

Print Friendly, PDF & Email