Fréttabréf FFR 6. tbl. júlí 2018

Kjararáð
Eins og greint var frá í síðasta fréttabréfi samþykkti Alþingi með lögum nr. 60/2018 að leggja kjararáð niður. Engu að síður kvað kjararáð þann 14. júní 2018 upp úrskurð vegna 48 erinda sem borist höfðu kjararáði á árunum 2015, 2016 og 2017, en úrskuðurinn var birtur á heimasíðu kjararáðs þann 3. júlí 2018.
Ljóst er að í úrskurðinum frá 14, júní sl. afgreiddi kjararáð ekki öll þau erindi sem ráðinu höfðu borist. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 60/2018 skal óloknum málum einstakra aðila, sem falla undir ákvæði 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lokið samkvæmt ákvæði 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur FFR ekki náð neinu sambandi við skrifstofu kjararáðs og þá virðist sem Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) hafi ekki fengið neinar upplýsingar frá kjararáði, s.s. um hversu mörg erindi voru óafgreidd þegar ráðið lauk störfum eða annað er varðar lok starfseminnar.  Félagið mun áfram reyna að þrýsta á um upplýsingar um þetta en gott væri að félagsmenn sem engin svör hafa fengið við erindum sínum létu FFR vita um það á netfangið: [email protected]

Nýtt matskerfi fyrir launaákvarðanir og starfsumhverfi forstöðumanna
Í lok sumars munu FFR og KMR sameiginlega halda kynningarfund fyrir félagsmenn FFR þar sem farið verður yfir hið nýja matskerfi fyrir launaákvarðanir og starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana. Í framhaldinu verða haldnir vinnufundir með forstöðumönnum. Á haustmánuðum 2018 er svo fyrirhugað að fagráðuneytin haldi fundi með hverjum forstöðumanni þar sem þau kynna matið vegna þess starfs sem forstöðumenn sinna. Ráðgert er að nýtt mat og launasetning  á grundvelli hins nýja matskerfis taki gildi eigi síðar en 1. janúar 2019.

Print Friendly, PDF & Email