Fundargerð aðalfundar FFR 18. maí 2011

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana var haldinn á Grand hóteli í Reykjavík miðvikudaginn 18. maí 2011. Hér má sjá fundargerð fundarins.

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana haldinn á Grand hótel miðvikudaginn 18. maí kl. 09.00.

Fundarstjóri: Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlits ríkisins

Sérstakur gestur fundarins var Ragna Árnadóttir skrifstj. Landsvirkjunar og fv. dómsmálaráðherra.
Dagskrá:
1. Setning – Formaður félagsins setti fundinn með eftirfarandi ávarpi:
„Ég vil í upphafi þakka ykkur fyrir það traust sem ég hef fundið fyrir frá ykkur sem formaður félagsins og fyrir frábært samstarf og góð kynni við ykkur, kærar þakkir fyrir það. Félag forstöðumanna ríkisstofnana er að mínu viti mikilvægur og vaxandi vettvangur fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu til forstöðumanna og til að vera tengiliður við stjórnvöld. Síðast en ekki síst er félagið vettvangur fyrir hagsmunamál félaga og er aukinn áhersla lögð á kjara- og réttindamálin, ekki veitir af eins og við munum ræða frekar á þessum fundi.
Á aðalfundi Félags forstöðumanna ríkisstofnana fyrir ári síðan þá hóf ég fundinn með því að benda á það að starfshópur hafi nýlega skilaði ríkisstjórninni áliti um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefnd Alþingis. Ég benti á að ein meginniðurstaðan hafi verið sú að faglegur grundvöllur stjórnsýslunnar sé veikur og að ástæður þessa séu ýmsar s.s. pólitískt inngrip í störf hennar, smæð eininga, persónutengsl og ónóg áhersla á faglega starfshætti.
Því miður er það mín tilfinning að lítið hafi miðað til þess að bæta úr þeim ágöllum sem starfshópurinn benti á, það finnum við sem eru í forystu í Félagi forstöðumanna á eigin skinni. Við finnum til dæmis fyrir því að fundir eru ekki haldnir í vinnuhópum sem við eigum aðild að mánuðum saman þrátt fyrir beiðnir um annað, klaufalega og ófaglega er staðið að niðurlagningu starfa forstöðumanna og Kjararáð, sem á að vera algerlega hlutlaus vettvangur til að ákvarða laun okkar virðist beitt pólitískum þrýstingi.
Forstöðumenn standa vaktina á fullum krafti í krefjandi verkefnum en þeir þurfa að fá eðlilega og sanngjarna umbun fyrir störf og árangur og þeir þurfa að geta treyst þeim sem þeir starfa með í Stjórnarráðinu og á Alþingi. Það er órökrétt að forstöðumenn fái neikvæð skilaboð af hendi stjórnvalda þegar þeir þurfa á hvatningu og stuðningi að halda við erfið verkefni. Fram hefur komið hjá fjármálaráðherra að forstöðumenn séu að standa sig ákaflega vel við hagræðingu í kjölfar hrunsins.
Stétt forstöðumanna ríkisstofnana, sem hvorki hefur samningsrétt né verkfallsrétt, hefur umfram aðra hópa í samfélaginu orðið fyrir óréttlátum aðgerðum í kjölfar hruns íslensks efnahagslífs í árslok 2008. Laun voru lækkuð og fryst með lagasetningu í tvígang og hefur kaupmáttur þessa hóps lækkað um 15% umfram aðra sambærilega hópa síðan í ársbyrjun 2009. Ákvæðum laga um frystingu og launalækkun var aflétt 1. desember 2010 en þrátt fyrir það hafa kjörin ekki verið leiðrétt til fyrra horfs þó að lög um Kjararáð tilgreini að svo skuli gert. Þetta verður að teljast afar slæm stjórnsýsla og mögulegt lögbrot sem við í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana getum ekki látið líðast.
Eðlileg laun og samhengi á milli árangurs og umbunar er hluti að nauðsynlegu umbótastarfi í íslenskri stjórnsýslu.
Vissulega eru til ýmis dæmi um góða stjórnsýslu í Stjórnarráðinu en hún virðist bundin við einstaka embættismenn, mjög virðist skorta á skilgreindar gæðakröfur og það virðist þurfa að efla mannauðsstjórnun í Stjórnarráðinu. Það vekur til dæmis athygli að í nýlegri könnun SFR um starfsánægju og trúverðuleika stjórnenda koma ráðuneytin illa út. Það er líka athyglivert að í Stjórnarráðinu hefur starfsmannavelta verið gríðarlega mikil undanfarin ár sem hlýtur að vera mikið áhyggjuefni.
Eins og áður hefur ekki staðið á Félagi forstöðumanna að stuðla að úrbótum í stjórnsýslunni meðal annars í samvinnu við Stofnun stjórnmála og stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Við í stjórn FFR höfum einnig átt fund með umboðsmanni Alþingis til að vekja athygli stöðunni.
Vegna þess að ég er að almennt jákvæður þá vil ég ítreka að það er mikilvægt að vinna hratt við að efla faglegan grundvöll stjórnsýslunnar á Íslandi, við það verkefni megum við aldrei gefast upp þó að á móti blási. Þar er ekki síst mikilvægt að huga að því hvernig auka má traust á stjórnsýslunni og bæta gæði í vinnubrögðum í stjórnsýslu á Íslandi. Þar held ég að þurfi hreinlega að fara í sérstakt átak gagnvart almenningi í landinu.“
Formaður þakkaði núverandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið á starfsárinu, einnig þeim sem sátu í starfskjararáði og uppstillingarnefnd, sem og þeim forstöðumönnum sem lögðu starfi félagsins lið.

Formaður fól Eyjólfi Sæmundssyni fundarstjórn.

Fundastjóri fór yfir dagskrárliði og lagði til að Anna Birna Þráinsdóttir tæki að sér ritun fundargerðar.
2. Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Landsvirkjunar og fv. dómsmálaráðherra – Ragna hélt erindi um skoðanir sína og viðhorf til skipan og starfa innan stjórnsýslunnar, sérstaklega með tilliti til frumvarps til laga um breytta skipan stjórnarráðsins
3. Skýrsla stjórnar um starfsemi síðastliðins starfsárs – Magnús Guðmundsson formaður rakti aðalatriði skýrslunnar og má sjá hana í heild sinni á vefsíðu félagsins.
4. Endurskoðaðir reikningar félagsins – Gissur Pétursson gerði grein fyrir reikningum félagsins. Rekstrarniðurstaða ársins var kr. 449.651 í hagnað. Eigið fé félagsins er kr. 2.745.979. Reikningar voru samþykktir.
5. Lagabreytingar – engar tillögur voru að breytingum á lögum félagsins.
6. Stjórnarkjör – tillaga uppstillingarnefndar

Sigríður Snæbjörnsdóttir, f.h. uppstillingarnefndar sem í sátu hún og Gísli Tryggvason, gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar að skipan næstu stjórnar:
Tillögur uppstillinganefndar á næstu stjórn FFR 2011 – 2012.
Aðalstjórn:
Magnús Guðmundsson, formaður
Anna Birna Þráinsdóttir
Gissur Pétursson
Ingibjörg Sverrisdóttir
Magnús Skúlason

Varastjórn:
Már Vilhjálmsson
Sigríður Lillý Baldursdóttir
Sveinn Margeirsson

Önnur framboð komu ekki fram og var formaður kosinn sérstaklega og síðan stjórn og varastjórn kjörin með lófataki.
7. Kosning fulltrúa í starfskjaranefnd – Tillaga uppstillinganefndar

Tillögur uppstillinganefndar um breytingar í starfskjaranefnd 2011 – 2012.
Uppstillinganefnd leggur til að starfskjaranefnd verði skipuð á eftirfarandi hátt:

Steingrímur Ari Arason
Kristín Völundardóttir
Indriði H. Þorláksson

Önnur framboð komu ekki fram og var tillagan samþykkt með lófataki.
8. Kosning tveggja endurskoðenda reikninga félagsins og jafn margir til vara – Endurskoðendur reikninga Guðgeir Eyjólfsson og Gestur Steinþórsson voru endurkjörnir skoðunarmenn.
9. Ákvörðun árgjalds – Gissur Pétursson gjaldkeri lagði til að árgjald félagsmanna yrði hækkað um 1000 kr. yrði kr. 7000. Þá lagði hann til að eldri félagsmenn greiddu kr. 1500 í félagsgjald. Hækkun félagsgjalda samþykkt sem og gjald eldri félagsmanna
10. Starfskjaramál – skýrsla starfskjaranefndar og umræður um hana.
Steingrímur Ari Arason gerði grein fyrir störfum nefndarinnar.
Taldi hann það hafa verið varnarsigur að laun forstöðumanna voru ekki fryst lengur en til 30. nóv. 2010 og ekki varð af frystingu launa opinberra starfsmanna almennt.
Hann gerði grein fyrir þeim fundum og samskiptum sem nefndin átti gagnvart fjármálaráðherra og kjararáði. Nefndin ásamt formanni FFR átti fund með fjármálaráðherra og virtist hann sýna launamálum forstöðumanna skilning. Starfskjaranefnd skilaði að beiðni kjararáðs greinargerð og tillögum vegna afléttingu launafrystingar þ.e. sjónarmiðum FFR og hvernig vinna ætti launalækkun tilbaka. Engin viðbrögð komu frá Kjararáði vegna þessa.

Einstakir félagsmenn rituðu einnig kjararáði bréf vegna sama máls en engin viðbrögð komu heldur þá frá Kjararáði.

Steingrímur Ari kvaðst því persónulega hafa brugðið á önnur ráð og sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna sinnu- og svaraleysis Kjararáðs. Umboðsmaður tók erindið upp á sína arma og óskaði svara frá kjararáði en það ekki enn svarað umboðsmanni þrátt fyrir liðin tímamörk.


Ályktun aðalfundar Félags forstöðumanna ríkisstofnana, 18. maí 2011, um rýrnun starfskjara og meint lögbrot kjararáðs

Á grundvelli laga nr. 148/2008 voru laun forstöðumanna ríkisstofnana lækkuð um 5-15% hinn 1. mars 2009 og hafa síðan haldist óbreytt. Lögin voru samþykkt á Alþingi í desember 2008 og áttu upphaflega að gilda til ársloka 2009, en voru ári síðar framlengd til 30. nóvember 2010 með lögum nr. 127/2009.
Að meðaltali lækkuðu laun forstöðumanna ríkisstofnana um 9,2% í mars 2009. Síðan þá hefur verðlag hækkað um 11,8% og kaupmáttur launanna samanlagt rýrnað um 18,8%. Eftir að launin voru síðast hækkuð fyrir þremur árum í maí 2008 hefur verðlag á hinn bóginn hækkað um 22,9% og kaupmáttur launa forstöðumanna ríkisstofnana samanlagt lækkað um 26,1%.
Frá mars 2009 og fram að gerð nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nú í maí 2011 hækkuðu laun í landinu að meðaltali um 8,4% samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar. Með öðrum orðum, á sama tíma og kaupmáttarskerðing forstöðumanna ríkisstofnana var 18,8% rýrnaði kaupmáttur launa almennt um 3,0%.
Lögskipað kjararáð ákveður laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana og ætti lögum samkvæmt að vera búið að afturkalla launalækkunina frá í mars 2009 fyrir löngu. Daginn sem inngripi löggjafans lauk 30. nóvember 2010 fundaði starfskjaranefnd FFR og formaður FFR með kjararáði. Farið var yfir stöðu mála og báðir aðilar lýstu yfir vilja til samstarfs. Síðan þá hefur ekkert gerst í málefnum forstöðumanna ríkisstofnana og kjararáð ítrekað virt erindi FFR og einstakra félagsmanna að vettugi.
FFR krefst þess að kjararáð afturkalli án frekari tafa launalækkunina frá 1. mars 2009 og að afturköllunin gildi frá 1. desember 2010. Sinnuleysi kjararáðs er ómálefnalegt og andstætt lögum nr. 47/2006 um ráðið. Jafnframt er þess krafist að laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana verði þegar í stað endurskoðuð í samræmi við ákvæði 8. og 10. gr. laga um ráðið.
Verði kjararáð ekki við framangreindum kröfum er eðlilegt að þeim sé fylgt eftir með málsókn á hendur ráðinu. Meint lögbrot kjararáðs snýst ekki aðeins um laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana heldur grefur það undan trausti og virðingu fyrir íslenskri stjórnsýslu. Við það verður ekki unað.

11. Önnur mál – komu ekki fram.
Fundi slitið um 10.15
Anna Birna Þráinsdóttir fundarritari

Print Friendly, PDF & Email