Ályktun aðalfundar Félags forstöðumanna ríkisstofnana, 18. maí 2011, um rýrnun starfskjara og meint lögbrot kjararáðs

Á grundvelli laga nr. 148/2008 voru laun forstöðumanna ríkisstofnana lækkuð um 5-15% hinn 1. mars 2009 og hafa síðan haldist óbreytt. Lögin voru samþykkt á Alþingi í desember 2008 og áttu upphaflega að gilda til ársloka 2009, en voru ári síðar framlengd til 30. nóvember 2010 með lögum nr. 127/2009.
Að meðaltali lækkuðu laun forstöðumanna ríkisstofnana um 9,2% í mars 2009. Síðan þá hefur verðlag hækkað um 11,8% og kaupmáttur launanna samanlagt rýrnað um 18,8%. Eftir að launin voru síðast hækkuð fyrir þremur árum í maí 2008 hefur verðlag á hinn bóginn hækkað um 22,9% og kaupmáttur launa forstöðumanna ríkisstofnana samanlagt lækkað um 26,1%.
Frá mars 2009 og fram að gerð nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nú í maí 2011 hækkuðu laun í landinu að meðaltali um 8,4% samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar. Með öðrum orðum, á sama tíma og kaupmáttar­skerðing forstöðumanna ríkisstofnana var 18,8% rýrnaði kaupmáttur launa almennt um 3,0%.
Lögskipað kjararáð ákveður laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana og ætti lögum samkvæmt að vera búið að afturkalla launalækkunina frá í mars 2009 fyrir löngu. Daginn sem inngripi löggjafans lauk 30. nóvember 2010 fundaði starfskjara­nefnd FFR og formaður FFR með kjararáði. Farið var yfir stöðu mála og báðir aðilar lýstu yfir vilja til sam­starfs. Síðan þá hefur ekkert gerst í málefnum forstöðumanna ríkisstofnana og kjararáð ítrekað virt erindi FFR og einstakra félagsmanna að vettugi.
FFR krefst þess að kjararáð afturkalli án frekari tafa launalækkunina frá 1. mars 2009 og að afturköllunin gildi frá 1. desember 2010. Sinnuleysi kjararáðs er ómálefnalegt og andstætt lögum nr. 47/2006 um ráðið. Jafnframt er þess krafist að laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana verði þegar í stað endurskoðuð í samræmi við ákvæði 8. og 10. gr. laga um ráðið.
Verði kjararáð ekki við framangreindum kröfum er eðlilegt að þeim sé fylgt eftir með málsókn á hendur ráðinu. Meint lögbrot kjararáðs snýst ekki aðeins um laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana heldur grefur það undan trausti og virðingu fyrir íslenskri stjórnsýslu. Við það verður ekki unað.

 

Á grundvelli laga nr. 148/2008 voru laun forstöðumanna ríkisstofnana lækkuð um 5-15% hinn 1. mars 2009 og hafa síðan haldist óbreytt. Lögin voru samþykkt á Alþingi í desember 2008 og áttu upphaflega að gilda til ársloka 2009, en voru ári síðar framlengd til 30. nóvember 2010 með lögum nr. 127/2009.
Að meðaltali lækkuðu laun forstöðumanna ríkisstofnana um 9,2% í mars 2009. Síðan þá hefur verðlag hækkað um 11,8% og kaupmáttur launanna samanlagt rýrnað um 18,8%. Eftir að launin voru síðast hækkuð fyrir þremur árum í maí 2008 hefur verðlag á hinn bóginn hækkað um 22,9% og kaupmáttur launa forstöðumanna ríkisstofnana samanlagt lækkað um 26,1%.
Frá mars 2009 og fram að gerð nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nú í maí 2011 hækkuðu laun í landinu að meðaltali um 8,4% samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar. Með öðrum orðum, á sama tíma og kaupmáttar­skerðing forstöðumanna ríkisstofnana var 18,8% rýrnaði kaupmáttur launa almennt um 3,0%.
Lögskipað kjararáð ákveður laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana og ætti lögum samkvæmt að vera búið að afturkalla launalækkunina frá í mars 2009 fyrir löngu. Daginn sem inngripi löggjafans lauk 30. nóvember 2010 fundaði starfskjara­nefnd FFR og formaður FFR með kjararáði. Farið var yfir stöðu mála og báðir aðilar lýstu yfir vilja til sam­starfs. Síðan þá hefur ekkert gerst í málefnum forstöðumanna ríkisstofnana og kjararáð ítrekað virt erindi FFR og einstakra félagsmanna að vettugi.
FFR krefst þess að kjararáð afturkalli án frekari tafa launalækkunina frá 1. mars 2009 og að afturköllunin gildi frá 1. desember 2010. Sinnuleysi kjararáðs er ómálefnalegt og andstætt lögum nr. 47/2006 um ráðið. Jafnframt er þess krafist að laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana verði þegar í stað endurskoðuð í samræmi við ákvæði 8. og 10. gr. laga um ráðið.
Verði kjararáð ekki við framangreindum kröfum er eðlilegt að þeim sé fylgt eftir með málsókn á hendur ráðinu. Meint lögbrot kjararáðs snýst ekki aðeins um laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana heldur grefur það undan trausti og virðingu fyrir íslenskri stjórnsýslu. Við það verður ekki unað.

Print Friendly, PDF & Email