Fréttabréf FFR 4. tbl. mars 2018

Nýr starfsmaður FFR og ný skrifstofa
Um síðustu áramót hóf Jóhanna Á. Jónsdóttir, lögfræðingur, störf í 50% starfshlutfalli á skrifstofu Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Jóhanna starfaði áður sem sviðsstjóri Skatta- og lögfræðisviðs PwC og var einn af eigendum félagsins. Þar áður starfaði hún hjá Ríkisskattstjóra.
Jóhanna hefur starfsaðstöðu á nýrri skrifstofu FFR sem er til húsa á Hverfisgötu 105, Reykjavík, á sama stað og Neytendasamtökin.
Félagsmenn í FFR eru hvattir til að hafa samband við Jóhönnu ef á þarf að halda og er hægt að gera það með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected], eða með því að slá á þráðinn í síma 852-7300.

Tillögur um breytingar á lögum FFR samþykktar einróma
Framhaldsaðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík föstudaginn 16. febrúar 2018. Fundurinn var ágætlega sóttur og var fundarstjóri Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri. Meginverkefni fundarins var að taka afstöðu til tillögu stjórnar um breytingar á lögum FFR til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á hlutverki félagsins eftir að kjara- og réttindamál forstöðumanna hafa með lögum verið færð frá Kjararáði til kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Tillögur stjórnar um lagabreytingar voru samþykktar einróma með smávægilegum breytingum en þær snérust aðallega um að fjölga verkefnum félagsins og koma á opnara ferli við kjör á fulltrúum í stjórn þess.
Lögin með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar eru aðgengileg á heimasíðu FFR hér en fundargerð fundarins og nýendurskoðuð lög hafa einnig verið send með tölvupósti til félagsmanna.

Svar fjármála- og efnahagsráðherra við bréfi FFR um 5 ára skipunartíma forstöðumanna
Eins og áður hefur komið fram á vettvangi FFR þá tilkynnti Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, á haustmánuðum 2017 að hún hygðist auglýsa öll störf forstöðumanna í ráðuneyti sínu þegar 5 ára ráðningartími rynni út. Að beiðni FFR vann lögfræðistofan Advel lögmenn lögfræðiálit um þetta efni þar sem skýrt kemur fram að ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra sé haldin ýmsum annmörkum, s.s. varðandi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf.
FFR sendi fjármála- og efnahagsráðherra bréf, dags. 19. september 2017, ásamt afriti af áliti Advel lögmannstofu, þar sem farið er fram á að áform um að auglýsa öll störf forstöðumanna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að loknum 5 ára skipunartíma verði dregin til baka. Ráðuneytið hefur nú svarað FFR með bréfi, dags. 27. febrúar 2018, þar sem tekið er undir þau meginsjónarmið sem fram koma í bréfi FFR um að heimild til að auglýsa starf forstöðumanns sé til staðar samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en að heimildin verði almennt ekki virk nema að undangenginni ákvörðun eða mati viðkomandi ráðherra. Í ljósi réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins þurfa þau sjónarmið sem viðkomandi ráðherra leggur til grundvallar þegar hann hugar að því hvort hann auglýsi embætti eða ekki að vera málefnaleg. Með hliðsjón af þeim áherslum sem koma fram í nýrri stjórnendastefnu ríkisins megi leiða líkum að því að heimild ráðherra til að auglýsa störf forstöðumanna áður en fimm ára skipunartíma þeirra er lokið verið oftar beitt í framtíðinni enda sé slík framkvæmd í samræmi við auknar kröfur um aðhald, faglega, opna og gagnsæja stjórnsýslu og betri nýtingu á mannauði. Bréfið í heild sinni er hægt að lesa hér.
Framangreint lögfræðiálit Advel er einnig aðgengilegt hér á heimasíðu FFR og bréf félagsins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins er hægt að lesa hér.

Samráðsgátt – opið samráð milli stjórnvalda við almenning
Í byrjun febrúar 2018 var tekin í notkun vefsíðan samradsgatt.island.is. Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Fyrst um sinn munu einungis ráðuneyti setja inn mál til samráðs en líklegt er að ríkisstofnanir og e.t.v. fleiri aðilar muni bætast við síðar.

 

Print Friendly, PDF & Email