Umsögn FFR um frumvarp til laga um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands (samráð og skipunartími)

Félag forstöðumanna ríkisstofnana hefur skilað umsögn um frumvarp til laga um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands til allsherjar- og menntamálanefndar (samráð og skipunartími). Verði frumvarpið að lögum mun skipunartími þjóðminjavarðar  og forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands að hámarki geta orðið 10 ár. Í umsögninnni er vísað til 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 þar sem segir að forstöðumenn ríkisstofnana skuli að jafnaði skipaðir til 5 ára í senn og að skipunartíminn framlengist sjálfkrafa um önnur fimm ár hafi viðkomandi ekki verið tilkynnt með að minnsta kosti sex mánaða fyrirvara að til standi að auglýsa embættið laust til umsóknar. Framangreind regla gildir um meginþorra forstöðumanna og heyrir til undantekninga að skipunartími sé takmarkaður við 10 ár líkt og lagt er til með frumvarpinu. Það er mat félagsins að rík rök verði að standa til þess að takmarka skipunartíma einstakra forstöðumanna líkt og lagt er upp með í frumvarpinu. Jafnframt er lögð áhersla á mikilvægi heildstæðrar og málefnalegrar umræðu um starfsumhverfi forstöðumanna ríkisins og allar breytingar á því taki mið af og séu í samræmi við Stjórnendastefnu ríkisins.

Print Friendly, PDF & Email