Hvernig bætum við stefnumótun og framkvæmd opinberrar þjónustu á grunni atferlisfræða og gagnreyndrar þekkingar? – fundur 8. febrúar 2017

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ og Félag forstöðumanna ríkisstofnana kynna morgunverðarfund, í samstarfi við forsætisráðuneytið:

Hvernig bætum við stefnumótun og framkvæmd opinberrar þjónustu á grunni atferlisfræða og gagnreyndrar þekkingar?

Morgunverðarfundur, miðvikudaginn 8. febrúar, kl. 8:30-10:00 á Grand hótel Reykjavík

Morgunverður, frá kl. 8:00,  er innifalinn í þátttökugjaldinu sem er kr. 5.800-

SKRÁNING á viðburðinn

Stjórnvöld í allnokkrum löndum,  þ.á.m. Bretlandi, Finnlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og Ástralíu, hafa á undanförnum 5-7 árum innleitt hagnýtingu á atferlisvísindum sem þátt í opinberri stefnumótun og stefnuframkvæmd. Á morgunverðarfundinum verður fjallað um kenningar og rannsóknir í félagssálfræði sem liggja til grundvallar þessari nálgun við stefnumótun og framkvæmd opinberrar þjónustu.  Auk þess verður sagt frá aðferðum og reynslu bresku stjórnsýslunnar við að innleiða þessa aðferðarfræði, en henni hefur m.a. verið beitt til að auka skilvirkni í innheimtu opinberra gjalda og til að efla virkniúrræði fyrir atvinnuleitendur.

Dagskrá:

8:30-8:55    Hugsað skakkt og beint, dr. Hulda Þórisdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

8:55-9:30   The power of nudge: Applying behavioural science to public policy, dr. Tiina Likki, sérfræðingur hjá Behavioural Insights Team í Bretlandi

9:30-10:00  Umræður og spurningar úr sal

Fundarstjóri:  Steinunn Halldórsdóttir, stjórnsýslufræðingur í forsætisráðuneytinu.

Dr. Tiina Likki,  er sérfræðingur hjá  Behavioural Insights Team (BIT) í Brelandi, en BIT hefur séð um innleiðingu þessarar aðferðafræði  þar í landi. Í erindi sínu, Hnippingar – aðferðir félagssálfræðinnar nýttar í stjórnsýslunni, mun Tiina segja frá reynslu og aðferðaferðafræði bresku stjórnsýslunnar að þessu leyti, bæði kenningalegum grunni og aðferðum, en ekki síður mun hún taka dæmi þar sem aðferðafræðinni hefur verið beitt.

Dr. Hulda Þórisdóttir  er stjórnmálasálfræðingur og dósent við Háskóla Íslands.  Hulda mun ræða hvernig rannsóknir sálfræðinga hafa sýnt fram á skilvirkni en jafnframt ófullkomnun mannlegrar hugsunar. Í fyrirlestrinum mun hún leitast við að útskýra hvernig og hvers vegna hugsun víkur kerfisbundið frá því sem kalla má fullkomna rökhyggju og hvaða afleiðingar það hefur fyrir ákvarðanatöku. Að lokum mun hún greina stuttlega frá því hvernig hagnýta má þankaskekkjur fólki til góðs.

Nánar um Behavioural Insights Team (BIT)

Markmið Behavioural Insights Team er þríþætt: Að gera opinbera þjónustu skilvirkari, hagkvæmari og aðgengilegri fyrir fólk; að auka árangur og útkomu með því að innleiða þekkingu um hegðun einstaklinga í stefnumótun og; að auðvelda fólki að „taka ákvarðanir sem gagnast því sjálfu“. BIT er ætlað að styrkja stefnumörkun stjórnvalda með því að byggja á þekkingu um hegðun fólks, en ekki ágiskunum um hana, sem of oft leiðir til lagasetningar, sem ekki er grundvölluð á þekkingu. Leiðirnar sem BIT leggur til eru m.a. að skipulagsbreytingar séu gerðar í samráði við fólkið sem breytingar snúast um og að rannsóknir séu gerðar áður en breytingar eru innleiddar. Gefnar hafa verið út praktískar leiðbeiningar undir heitinu EAST um það hvað eigi að leggja áherslu á þegar breyta á hegðun. Þar er um fjögur atriði að ræða. Gerum þjónustuna/aðgerðina:

  • Eftirtektarverða, t.d. með því að draga athygli að henni með litum og myndum eða með því að persónugera hana;
  •  Auðvelda, t.d. með því að einfalda skilaboð, bréf og umsóknareyðublöð, hafa sjálfgefinn (default) valkost, fylla út svo mikið sem hægt er fyrirfram;
  •  Samfélagslega, t.d. með því að vísa til þess að flestir geri þetta svona;
  •  Tímanlega, t.d. með því að ýta tímanlega við fólki með símaskilaboði.

Sjá leiðbeiningar frá Behavioural Insights Team í Bretlandi: EAST: Four simple ways to apply behavioural insights (pdf).
Sjá skýrslu um framkvæmd í Bandaríkjunum: Behavioral Economics and Social Policy: Designing Innovative Solutions for Programs Supported by the Administration for Children and Families  (pdf).

Að loknum fundi má nálgast glærur frá fundinum á sérstöku vefsvæði Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og FFR; http://www.stjornsyslustofnun.hi.is/node/1060. Einnig verður hægt að fá upptöku af hljóði (hljóðskrá) og kynningarefnið sent, með því að skrifa til: [email protected]

Print Friendly, PDF & Email