Fundargerð og vefupptaka frá ráðstefnu um endurskipulagningu opinberrar þjónustu 18. febrúar 2010

Fundargerð og vefupptaka frá ráðstefnu um endurskipulagningu opinberrar þjónustu 18. febrúar 2010

Fimmtudaginn 18. febrúar 2010 var haldin ráðstefna og vinnustofa um endurskipulagningu opinberrar þjónustu á vegum fjármálaráðuneytis, Sóknaráætlunar 20/20, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnunar stjórnsýslufræða við HÍ. Vefupptaka frá ráðstefnunni er nú aðgengileg hér á vef FFR sem og fundargerð.
Fimmtudaginn 18. febrúar 2010 var haldin ráðstefna og vinnustofa um endurskipulagningu opinberrar þjónustu á vegum fjármálaráðuneytis, Sóknaráætlunar 20/20, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnunar stjórnsýslufræða við HÍ. Vefupptaka frá ráðstefnunni er nú aðgengileg hér á vef FFR og hér fyrir neðan er fundargerð ráðstefnunnar.

Ráðstefnuefni: Endurskipulagning opinberrar þjónustu.

Aðstandendur ráðstefnunnar: Fjármálaráðuneytið, Sóknaráætlun 20/20, FFR og Stofnun stjórnsýslufræða.

Staður og tími: Grand hótel í Reykjavík kl. 8:30-11:00.

Ráðstefnustjóri: Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.

Bakgrunnur: Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um umtalsverðar stjórnkerfisbreytingar og umbætur í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni. Þá er í þingsályktunartillögu um sóknaráætlun til að efla atvinnulíf og samfélag um allt land, sem nú liggur fyrir Alþingi, fjallað um endurskipulagningu opinberrar þjónustu og eflingu sveitarstjórnarstigsins. Markmiðið er að forgangsraða í ríkisrekstrinum með nýjum hætti, verja grunnþjónustu, auka skilvirkni í ríkisrekstri með stærri og hagkvæmari einingum, einfalda stjórnsýslu og þjónustu, endurskoða verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og gera ríkiskerfið betur í stakk búið til að takast á við breytingar.

Þó að staða ríkisfjármála kalli á endurskipulagningu eru breytingar á ákveðnum sviðum löngu tímabærar, m.a. vegna breytinga sem orðið hafa á þörfum fólks í samfélaginu, byggðaþróun og tækniþróun. Flest ráðuneyti hafa farið yfir verkefnin sem þau sinna og við það hafa kviknað fjölmargar hugmyndir um sameiningar stofnana og breytingar á verkefnum. Sumu hefur þegar verið hrint í framkvæmd meðan annað er styttra á veg komið.

Fyrr í vetur var haldin ráðstefna um sameiningu og endurskipulagningu stofnana. Þar var rætt almennt um það hvernig best væri að standa að breytingum eins og þeim sem nú eru á döfinni. Þessi ráðstefna er framhald af þeirri fyrri og skiptist hún í tvo hluta:

I. Í fyrri hlutanum verður rædd nauðsyn þess að ráðast í viðamiklar skipulagsbreytingar á þessum tímapunkti og leitað svara við þremur spurningum tengdum endurskipulagningu opinberrar þjónustu: Af hverju erum við að endurskipuleggja opinbera þjónustu? Hvaða þjónustu eigum við að endurskipuleggja? Hvernig förum við að því?
II. Í síðari hlutanum verður vinnustofa með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem ráðstefnu­gestum gefst færi á að ræða tækifæri og möguleika sem felast þeim hugmyndum sem uppi eru um breytingar.

Miðlun ráðstefnunnar: Vefupptaka frá ráðstefnunni er heimasíðu Félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Dagskrá

Berglind Ásgeirsdóttir býður gesti velkomna og fer yfir skipulag og markmið fundarins. Ríkisstofnanir eru um 200. Minni fjármunir nú en áður. Verkefni hins opinbera – eftir hverju er eftirspurn. Samgöngur skipta máli í því hvar þjónusta er veitt. Hvers vegna þarf að endurskoða opinbera þjónustu? Hvaða þjónustu á að endurskoða? Hvernig á að endurskoða hana? Margt getur lækkað ríkisútgjöld, t.d. penninn sem læknar halda á.

1. Fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon kynnir það sem framundan er og nauðsyn endurskipulagningar ríkisrekstrarins í því ljósi. Sjá vefupptöku.

2. Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og Arnar Másson sérfræðingur í fjármálaráðuneyti kynna fyrirliggjandi hugmyndir að endurskipulagningu og stjórnkerfisbreytingum. Sjá vefupptöku.

3. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kynnir fyrirhugaðar tilfærslur á verkefnum til sveitarfélaga og áhrif þeirra. Sjá vefupptöku.

4. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri kynnir vinnulag við nýlega sameiningu skattumdæma, sem dæmi um endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Sjá vefupptöku.

Ráðstefnustjóri: Opinber þjónusta hefur vaxið í samanburði við OECD. Við eigum ekkert val um að hugsa upp á nýtt varðandi opinbera þjónustu. Þetta snýst um heildarhagsmuni – ekki þrýstihópa.

5. Þátttakendur leggja inn hugmyndir að tækifærum í endurskipulagningu og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þátttakendum, ásamt verkstjóra sem er á hverju borði, er falið að fjalla um aðra hvora eftirfarandi spurninga og skila tillögum:
Hvar eru helstu tækifærin við sameiningu ráðuneyta og stofnana?
Hvar eru helstu tækifærin í tengslum við eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukins samstarfs um veitingu þjónustu ríkis og sveitarfélaga?

Skriflegum niðurstöðum safnað saman.

Ráðstefnunni slitið kl. 11.
150 manns sótti ráðstefnuna.
Fundargerð: Ingibjörg S. Guðmundsdóttir

Print Friendly, PDF & Email