Fréttir frá stjórn Árnessjóðsins

Árnessjóðurinn vill koma á framfæri við sjóðsfélaga nokkrum breytingum sem gerðar hafa verið að undanförnu ásamt því að upplýsa þá um hvað sé á döfinni.
Stjórn sjóðsins
Sú breyting hefur orðið á stjórn sjóðsins að ráðuneytið hefur skipað Maríönnu Jónasdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu skattamála í stjórnina í stað Angantýs Einarssonar sem tók við starfi fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins í Brussel til ársloka 2015.

Reglur sjóðsins
Reglum sjóðsins hefur verið breytt. Helstu breytingarnar eru sem hér segir:
Aðild að Árnessjóðnum miðast við að greitt hafi verið til hans mánaðarlegt framlag í 6 mánuði sem miðast við 0,25% af heildarlaunum fyrir a.m.k. hálft starf. Fylgt er skrá fjármála- og efnahagsráðuneytisins þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert yfir sjóðsfélaga. Orlofspunktar eru að hámarki 12 á ári. Punktaávinnsla miðast eingöngu við greiðslu framlags. Orlofspunktar ávinnast ekki ef greiðslur til sjóðsins falla niður.
Fæðingarorlof. Sjóðsfélagi viðheldur óskertum úthlutunarrétti þó svo að hann fari í lögbundið fæðingarorlof.
Lífeyrisþegar. Þeir sjóðsfélagar sem njóta fullra réttinda Árnessjóðs við töku lífeyris og hafa greitt framlag í sjóðinn í samtals 5 ár geta viðhaldið rétti sínum til að leigja orlofshús á vetrartíma á sömu kjörum og sjóðsfélagar með því að greiða svokallað ævigjald kr. 20.000.  Óski fyrrum sjóðsfélagi aðildar þarf hann að senda umsókn til sjóðsins sem stjórn hans tekur fyrir.

Orlofshúsið í Stykkishólmi og húsin á Akureyri
Í svörum við viðhorfskönnuninni frá því í október var einkum fundið að ástandi og búnaði húsanna fyrir norðan. Brugðist hefur verið við mörgu af því sem þar kom fram. Keyptar hafa verið nýjar sængur, koddar og yfirdýnur. Borðbúnaður var endurnýjaður að hluta og skipt út húsgögnum sem voru orðin léleg. Stutt er síðan bústaðirnir voru málaðir að utan en á síðasta ári voru gólf slípuð og lökkuð og húsin síðan hreingerð. Húsin líta því almennt vel út.

Í könnuninni var spurt um vilja til að selja annan bústaðinn í Kjarnaskógi og kaupa annan í staðinn á Suður- eða Vesturlandi. 73% sögðu sig fylgjandi því. Málið er til skoðunar en engin ákvörðun liggur enn fyrir. Sjóðurinn hefur nokkur undanfarin ár haft á leigu hús við Laufásveg í Stykkishólmi. Nú hefur verið ákveðið að segja leigunni upp frá og með 1. júní 2014. Ástæða þessa er að húsið er mjög illa nýtt yfir vetrartímann en hefur verið ágætlega nýtt yfir sumartímann.

Vefsíða sjóðsins
Í viðhorfskönnuninni var einnig kvartað undan upplýsingagjöf og aðgengi að vefnum. Unnið er að því að uppfæra vefsíðuna og auðvelda aðgengið. Vonandi lýkur því á næstu vikum. Þá ættu mörg umkvörtunaratriði að vera úr sögunni.

Stjórn Árnessjóðs