Ályktun frá félagsfundi FFR á Grand hóteli 11.febrúar 2014

Félagsfundur FFR sem haldinn var á Grand hóteli 11. febrúar samþykkti með öllum greiddum atkvæðum neðangreinda ályktun vegna stöðu félagsmanna FFR í kjaramálum.

Ályktun

fundar Félags forstöðumanna ríkisstofnana

haldinn á Grand Hótel í Reykjavík 11. febrúar 2014

Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) telur kjararáð hafa brotið lög á félagsmönnum og að fullreynt sé að ráðið eigi frumkvæði að nauðsynlegri leiðréttingu á starfskjörum forstöðu­manna í samræmi við lög nr. 47/2006 um kjararáð. Lækkun launa forstöðumanna í kjölfar efnahagshrunsins 2008 var lögum samkvæmt tíma­bund­in aðgerð í tvö ár af hálfu löggjafans. Að þeim tíma loknum bar kjararáði að endurskoða starfs­kjör forstöðumanna til samræmis við kjör þeirra sem gegna sambærilegum störfum. Kjararáði bar að afturkalla lögboðnu launalækkunina sem gilti til 1. desember 2010 og að endurskoða laun forstöðumanna frá þeim tíma. Með því að draga afturköllun launalækkunarinnar í tíu mánuði eða til 1. október 2011 og neita samtímis að endurskoða starfskjörin með hliðsjón af launaþróun viðmiðunarhópa samkvæmt lögum, braut kjararáð lög.

Samkvæmt stjórnarskrá Íslands og alþjóðlegum skuldbindingum eru verulegar takmarkanir á því að hægt sé að svipta menn rétti til að semja um starfskjör sín. Forstöðumenn ríkisstofnana þurfa að gangast undir þessa réttindaskerðingu í trausti þess að kjararáð ákvarðaði starfskjör þeirra í samræmi við sett lög. Það hefur ráðið ekki gert. Álit umboðsmanns Alþingis frá 7. maí 2013 er m.a. til vitnis um þá staðhæfingu, svo og þau tilmæli hans að kjararáð taki erindi FFR um starfskjör forstöðumanna fyrir að nýju. Frávísun kjararáðs síðastliðið sumar á ósk FFR um endur­upptöku málsins kom í opna skjöldu og lokaði í raun öðrum löglegum leiðum en málshöfðun fyrir félagsmenn sem ekki vilja una óréttinum.

FFR lýsir því yfir fullum stuðn­ingi við fyrirhugaða málshöfðun vegna lögbrota kjararáðs. Einn forstöðumaður mun sækja málið, en FFR lítur svo á að niðurstaðan hafi fordæmisgildi fyrir alla félagsmenn sem gengt hafa starfi forstöðumanns eftir 1. desember 2010. Félagið er jafnframt reiðubúið að standa undir útlögðum kostnaði við málshöfðunina.

Starfsemi og árangur þeirra stofnana sem félagsmenn í FFR veita forstöðu er ekki síst undir því kominn að farið sé að lögum og settum reglum.  Félagið getur því ekki setið aðgerð­ar­­laust þegar tilmæli umboðsmanns Alþingis eru hunsuð. Kjararáði ber eins og öðrum handhöfum stjórnsýsluvalds að fara að lögum.

Print Friendly, PDF & Email