Fréttabréf FFR 3. tbl. nóvember 2017

Breytingar á starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana
Eins og áður hefur verið greint frá þá er nú unnið að því hjá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins í samráði við Félag forstöðumanna ríkisstofnana  að ákvarða grunn­launa­flokkun og und­ir­flokkun starfa for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana https://ffr.is/nytt-vinnuumhverfi/. Í tengslum við þessa vinnu hafa verið haldnir tveir velheppnaðir samráðs- og rýnifundir á síðustu vikum, annars vegar þann 19. september og hinsvegar þann 17. október. Á þessum fundum var forstöðumönnum boðið að taka þátt í að ræða tillögur um aðferðafræði við grunnmat starfa. Á seinni fundinum voru einnig boðaðir fulltrúar ráðuneyta og gaf það góða raun. Þessir fundir hafa verið afar gagnlegir og er öllum þeim sem tóku þátt þakkað fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Nýr starfsmaður hjá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana
Á fundi stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana þann 11. ágúst 2017 var ákveðið að hefja vinnu við að ráða starfsmann FFR vegna nýrra verkefna í kjölfar breytinga á lögum um Kjararáð. Auglýst var eftir háskólamenntuðum einstaklingi og sóttu sex um starfið. Eftir mat á umsóknum og viðtöl við umsækjendur hefur stjórn FFR ákveðið að ráða Jóhönnu Áskels Jónsdóttur lögfræðing í starfið og mun hún hefja störf um eða eftir næstu áramót. Jóhanna hefur undanfarin ár starfað hjá PricewaterhouseCoopers þar sem hún hefur sinnt starfi sviðsstjóra á Skatta- og lögfræðisviði frá árinu 2013.
Hlutverk nýs starfsmanns verður aðallega umsjón með daglegum rekstri félagsins og virk þátttaka í mótun og þróun á vinnuumhverfi forstöðumanna. Hún mun einnig hafa mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og þjónustu við forstöðumenn varðandi réttindamál og við úrlausn álitaefna.

Umsókn í Starfsmenntunarsjóð
Í mars 2016 var samþykkt umsókn Félag forstöðumanna ríkisstofnana um 5.000.000 kr. styrk frá Starfsmenntunarsjóði embættismanna til að þróa vinnuferla varðandi starfskjaramál forstöðumanna. Í kjölfarið réði félagið Guðrúnu Ragnarsdóttur hjá Strategíu til þess að aðstoða við þessa vinnu sem hefur gengið vel í góðri samvinnu við Kjara- og mannauðssýsluna. Nú hefur aftur verið sótt um styrk upp á 5.000.000 kr. til þess að halda verkefninu áfram en ljóst er að aðeins tæplega helmingi þess er lokið. Byggja þarf upp grunnmat starfa og frammistöðumat, vinna að verklagi varðandi endurmenntun og hreyfanleika í starfi og starfslok sem og að setja upp ferla varðandi nýtt hlutverk Félags forstöðumanna ríkisstofnana.
Umóknina til Starfsmenntunarsjóðs embættismanna er hægt að lesa hér á heimasíðu FFR.

Nýir í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana
Eins og eðlilegt er þá koma reglulega nýir forstöðumenn í Félag forstöðumanna en í lögum félagsins (https://ffr.is/um-ffr/log-ffr/) segir  „Allir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem fá laun sín ákvörðuð af Kjararáði eru félagsmenn í félaginu nema þeir óski að standa utan þess“. Eftirtalin hafa undanfarin verið ráðin í störf forstöðumanna og orðið félagar í Félagi forstöðumenna ríkisstofnana:

  • Elísabet Siemsen Skólameistari MR
  • Ólafur H. Sigurjónsson Skólameistari FÁ (tímabundið)
  • Margrét María Sigurðardóttir forstjóri Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
  • Salvör Nordal Umboðsmaður barna
  • Harpa Þórsdóttir Safnstjóri Listasafns Íslands.

Þeir forstöðumenn sem láta af störfum geta áfram verið í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana samkvæmt lögum félagsins en í lögum félagsins segir um þetta atriði: „Óski fyrrverandi forstöðumaður að vera áfram félagsmaður FFR skal hann senda stjórn félagsins bréf þess efnis og hefur þá full réttindi innan félagsins önnur en kosningarétt og kjörgengi til stjórnar.“

Print Friendly, PDF & Email