Lögfræðiálit um 5 ára ráðninga
Eins og fram kom í síðasta fréttabréfi Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) þá tilkynnti Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra að hún hyggðist auglýsa öll störf forstjóra í ráðuneyti sínu þegar 5 ára ráðningartími rennur úr. Í kjölfar þess hefur FFR látið vinna lögfræðiálit um þetta efni og voru þau Óskar Norðmann hdl og Jóhanna Katrín Magnúsdóttir hdl hjá lögfræðistofunni Advel lögmenn sem unnu það. Í álitinu kemur skýrt fram að ákvörðun ráðherra sé haldin ýmsum annmörkum s.s. varðandi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf. FFR hefur sent álitið til fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með mannauðsmál ríkisins og afrit hefur verið sent á umhverfis- og auðlindaráðherra og forsætisráðherra. Í bréfi með lögfræðiálitinu er farið fram á að áform um að auglýsa störf forstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að loknum 5 ára skipunartíma verði dregin til baka m.a. í ljósi þess sem fram kemur í lögfræðiáltinu og að unnið er að nýju verklagi í fjármála- og efnagsráðuneytinu varðandi kaup og kjör forstöðumanna. Lögfræðiáltið hefur nú verið birt á heimasíðu FFR og er hægt að lesa það hér og bréfið með álitinu er hægt að lesa hér.
Samráðsfundur um nýtt vinnuumhverfi
Þann 19. september síðastliðinn héldu Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR), Kjara- og mannauðssýsla (KMR) og Skrifstofa stjórnunar og umbóta (SSU) í Fjármálaráðuneytinu samráðsfund um nýtt vinnuumhverfi. Fundurinn er liður í undirbúningi fyrir nýtt vinnuumhverfi forstöðumanna sem tekur gildi um næstu áramót. Fundurinn var vel sóttur og er hægt að skoða kynningarefni sem var notað á fundinum á heimasíðu FFR .
Starf verkefnisstjóra laust til umsóknar
Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) leitar að verkefnastjóra í hálft starf á skrifstofu félagsins í Reykjavík frá og með 1. nóvember 2017. Verkefnastjóri mun sjá um daglegan rekstur og utanumhald um starfsemi félagsins, taka virkan þátt í þróun á nýju vinnu-umhverfi forstöðumanna, annast upplýsingagjöf og hafa umsjón með fundum og fræðslumálum, auk þess að vinna að hagsmunamálum félagsmanna, þar með talið kjaramálum. Auglýsingu um starfið er hægt að skoða á heimasíðu FFR.
Lausar stöður skólameistara framhaldsskóla
Skólameistarar framhaldsskóla er stór hópur innan FFR eða 27 talsins og því sjást auglýsingar um lausar stöður skólameistara oftar en annarra forstöðumanna. Þann 8. ágúst rann út umsóknarfrestur um tvær stöður þ.e. skólameistarastöðuna við Fjölbrautaskólann við Ármúla og stöðu rektors við Menntaskólann í Reykjavík. Búast má við niðurstöðu fljótlega.