Í málinu var deilt um gildi þeirrar ákvörðunar mennta- og menningarmálaráðherra að auglýsa stöðu skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi lausa til umsóknar. Ágreiningur málsins snérist annars vegar um það hvort stefnanda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun innan 6 mánaða áður en skipunartími hennar rann út og hins vegar hvort ákvörðunin væri ógildanleg af þeim sökum að reglur stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar við undirbúning og töku ákvörðunarinnar. Tengdur síðarnefnda ágreiningnum var ágreiningur um hvort ákvörðun ráðherra teldist vera stjórnsýsluákvörðun í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að nægjanlegt hafi verið að tilkynna stefnanda með munnlegum hætti að fyrirhugað væri að auglýsa stöðu hennar innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 2. mgr. 23. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, en óumdeilt var að ráðherra hafði samband símleiðis við stefnanda þann 30. júní 2019.

Þá féllst dómurinn ekki á það með stefnanda að stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eða óskráðri meginreglu sama efnis við undirbúning umdeildrar ákvörðunar. Ekki sé unnt að líta svo á að stefnandi hafi á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 átt sjálfstæða rétt til að koma að andmælum áður en ákvörðunin var tekin, enda líti dómurinn hvorki svo á að ákvörðun stefnda sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. sömu laga né heldur að skort hafi á rannsókn málsins. Með hliðsjón af þeirri rúmu heimild sem ráðherra hefur til að meta hvaða sjónarmið hann leggur til grundvallar ákvörðun um að auglýsa stöðu embættismanna verði að telja með öllu órökstutt og ósannað að mat ráðherra hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum, en fyrir lágu ítarlegar upplýsingar og fullnægjandi rannsókn á starfsemi skólans.

Hér má lesa dóminn.

Dómurinn var staðfestur í Landsrétti.

Print Friendly, PDF & Email