Fordæmisgefandi dómur fyrir forstöðumenn ríkisstofnana

Í gær var í Héraðsdómi Reykjavíkur kveðinn upp fordæmisgefandi dómur fyrir alla forstöðumenn ríkisstofnana (mál nr. E-3006/2022). Með dóminum er viðurkenndur réttur forstöðumanna til rökstuðnings fjármála- og efnahagsráðherra fyrir ákvörðun um starfskjör þeirra og til aðgangs að skriflegum gögnum er ákvörðunina varða. Dómurinn staðfestir þar með álit setts umboðsmanns Alþingis í málum nr. 10343/2019 og 10475/2020. Fjármála- og efnahagsráðuneytið undi hins vegar ekki niðurstöðu umboðsmanns.

Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) fagnar því að niðurstaða hafi fengist í þetta mikilvæga mál sem mun bæta réttarstöðu forstöðumanna, ásamt því að eyða óvissu um eðli launaákvarðana þeirra. Að mati FFR tekur dómurinn af allan vafa um að ákvarðanir fjármála- og efnahagsráðherra um laun forstöðumanna teljist til stjórnvaldsákvarðana og ber ráðherra því að fylgja stjórnsýslulögum við meðferð þeirra mála. Sá forstöðumaður sem gegnir starfinu hverju sinni telst því ótvírætt aðili máls þegar ákvörðun um laun hans er tekin og nýtur þar með þeirra réttinda sem stjórnsýslulög kveða á um, svo sem um rétt til aðgangs að gögnum og rökstuðnings fyrir ákvörðun.

Print Friendly, PDF & Email