Stjórn FFR boðar til fræðslufundar á TEAMS þriðjudaginn 5. nóvember næstkomandi kl. 11:00-12:00 um samskipti og vellíðan á vinnustað. Á fundinum mun Hilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Mental ráðgjöf ehf. beina sjónum að mikilvægi heilbrigðra samskipta, sjálfstyrkrar hegðunar og skýrra marka þegar kemur að vellíðan og starfsanda á vinnustað. Erindinu er ætlað að vekja stjórnendur til vitundar um hvað heilbrigð samskipti fela í sér og fjallað verður um hlutverk og ábyrgð okkar allra í því að stuðla að góðum, opnum, jákvæðum og heilbrigðum samskiptum. Farið verður yfir þau helstu atriði sem einkenna góð og árangursrík samskipti og það hvernig sjálfstyrk hegðun og sjálfstraust gera okkur kleift að setja heilbrigð og skýr mörk í samskiptum.
Nánari upplýsingar um fundinn og skráningu hafa verið sendar til félagsmanna.