Fréttabréf FFR ágúst 2017

Aukin og bætt upplýsingamiðlun til félagsmanna

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana sem var haldin hjá Mannvirkjastofnun þann 11. ágúst 2017 var ákveðið að vinna að því að auka og bæta miðlun upplýsinga til félagsmanna. Það fréttabréf sem hér birtist í fyrsta sinn er einn þáttur í þessu átaki stjórnarinnar auk þess sem heimasíðan www.ffr.is er mikilvægur vettvangur til að miðla upplýsingum. Fréttabréfið verður sent á póstlista FFR en auk þess verður hægt að garast áskrifandi að því með einföldum hætti.

Áfram verður einnig lögð áhersla á að skipuleggja málþing og fundi til að fjalla um ýmis brýn mál sem tengjast vettvangi forstöðumanna ríkisstofnana.

 

Ný stjórn og starfskjaranefnd Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana var haldinn á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík þriðjudaginn 31. maí 2017 kl. 11-13. Fundurinn var vel sóttur og var fundarstjóri Halldóra Vífilsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Á fundinum voru eftirtalin kosin í stjórn FFR:

Björn Karlsson, formaður (forstjóri Mannvirkjastofnunar)

Halldór Ó. Sigurðsson, stjórn (Forstjóri Ríkiskaupa)

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, ritari (Landsbókavörður)

Kristín Linda Árnadóttir, gjaldkeri (Forstjóri Umhverfisstofnunar)

Margrét Hallgrímsdóttir, stjórn (Þjóðminjavörður)

Ársæll Guðmundsson, varastjórn (Skólameistari Borgarholtsskóla)

Eyþór Björnsson, varastjórn (Forsjóri Fiskistofu)

Magnús Guðmundsson, varastjórnj (Forstjóri Landmælinga Íslands)

 

Eftirtalin voru kosin í Starfskjaranefnd FFR:

Herdís Gunnars­dóttir, (Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands)

Hrafnkell V. Gíslason, (Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar)

Sveinn Runólfsson, (Fyrrverandi Landsgræðslustjóri)

 

Breytingar á starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana

Á síðasta ári samþykkti Alþingi breytingar á lögum um Kjararáð á þann veg að forstöðumenn ríkisstofnana hætta að heyra undir ráðið hvað varðar ákvarðanir um launakjör frá 1. júlí 2017. Á vorþingi 2017 ákvað Alþingi svo að færa tímasetningu þessarar breytingar aftur til 1. janúar 2018. Í því frumvarpi sem Alþingi samþykkti um breytingar á Kjararáði eru ekki nákvæmar tillögur um hvernig fyrirkomulag skuli viðhaft við launasetningu forstöðumanna ríkisstofnana þó að meginlínur séu lagðar. Þessu mikilvæga verkefni er komið fyrir hjá Kjara- og mannauðssýsla fjármála- og efnahgasráðuneytisins sem er falið að ákvarða grunn­launa­flokkun og und­ir­flokkun starfa for­stöðu­manna rík­is­stofn­ana auk for­sendna fyrir greiðslu við­bót­ar­launa. Frá því í janúar 2017 hafa verið haldnir vikulegir fundir með fulltrúum FFR og Kjara og mannauðssýslu ríkisins (KMR) og skrifstofu stjórnunar og umbóta (SSU) í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í þeim drögum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir fjögurra ára innleiðing­arferli við að breyta fyrirkomulagi um launaröðun og tengd mál.

Frekari upplýsingar um þetta mikilvæg málefni er hægt að fá á heimasíðu FFR: https://ffr.is/nytt-vinnuumhverfi/

 

Auglýst eftir starfsmanni hjá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana

Á fundi stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana þann 11. ágúst 2017 var ákveðið að hefja vinnu við að ráða starfsmann FFR vegna nýrra verkefna í kjölfar breytinga á lögum um Kjararáð. Auglýst verður eftir háskólamenntuðum einstaklingi sem þekkir til vinnuumhverfis forstöðumanna og verða helstu verkefni hans daglegur rekstur félagsins og virk þátttaka í mótun og þróun á vinnuumhverfi forstöðumanna. Starfsmaðurinn mun einnig hafa mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og þjónustu við forstöðumenn varðandi réttindamál og við úrlausn álitaefna.

Auglýsing vegna nýja starfsins mun verða birt fljótlega í opinberum miðlum og á heimasíðu FFR (www.ffr.is)

Print Friendly, PDF & Email