Málstofa fimmtudaginn 16. maí nk: Samskiptastefna sem hluti af forvörnum forstöðumanna

Stjórn FFR boðar til málstofu um mikilvægi vandaðrar samskiptastefnu, þekkingar á grunnþáttum almannatengsla og réttrar ráðgjafar í þeim efnum. Málstofan verður haldin í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 16. maí nk. kl. 13:30-14:30 áður en aðalfundur FFR fer fram. Á málstofunni munu þau Andrea Guðmundsdóttir, doktorsnemi í samskiptafræðum og aðjúnkt og fagstjóri miðlunar og almannatengsla við Háskólann á Bifröst og Ingvar Örn Ingvarsson, framkvæmdastjóri alþjóðlegu almannatengslastofunnar Cohn & Wolfe á Íslandi skoða málin frá tveimur sjónarhornum, því fræðilega og því praktíska. Í kjölfarið gefst kostur á umræðum og spurningum.

Erindi Andreu ber yfirskriftina Að eiga innistæðu í orðsporsbankanum, en í því mun hún ræða mikilvægi þess að vera fyrirbyggjandi þegar kemur að samskiptum. Það getur reynst vel í krísum að vera búinn að byggja upp gagnkvæm samskipti við hagaðila sem skapa virði, bæta ímynd og gefa okkur innistæðu í orðsporsbankanum. Hún mun einnig ræða fyrirbyggjandi aðgerðir og þá ferla sem þurfa að vera til staðar til að reyna að koma í veg fyrir krísur, í stað þess að bregðast við eftir að skaðinn er skeður. Að lokum mun hún ræða stöðu upplýsingafulltrúa og samskiptastjóra í opinberum stofnunum á Íslandi.

Erindi Ingvars ber yfirskriftina Fagleg almannatengsl  og mun hann fjalla um mikilvægi faglegrar ráðgjafar í almannatengslum sem byggir á þekkingu á aðferðafræði, skilgreiningum, réttri hugtakanotkun og tilhlýðilegri reynslu.

Print Friendly, PDF & Email