Fundargerð aðalfundar FFR 11. maí 2010
Aðalfundur FFR var haldinn 11. maí 2010. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Sérstakur gestur fundarins var Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hér má sjá ítarlega fundargerð fundarins og tengla á glærur og fleira.
Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana var haldinn á Grand Hóteli í Reykjavík, þriðjudaginn 11. maí 2010 kl. 09:00.
Fundarstjóri: Sigrún Jóhannesdóttir forstjóri Persónuverndar.
Sérstakur gestur fundarins var Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Dagskrá
1. Setning.
Magnús Guðmundsson formaður FFR flutti eftirfarandi opnunarávarp.
Félagsmenn í Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og aðrir gestir
Í skýrslu sem starfshópur undir stjórn Gunnars Helga Kristinssonar skilaði ríkisstjórninni síðastliðinn föstudag um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefnd Alþingis segir að faglegur grundvöllur stjórnsýslunnar sé veikur. Ástæður þessa eru sagðar ýmsar s.s. pólitískt inngrip í störf hennar, smæð eininga, persónutengsl og ónóg áhersla á faglega starfshætti.
Það hefur ekki staðið á Félagi forstöðumanna að stuðla að úrbótum á þessu sviði undanfarin ár meðal annars í afar góðri samvinnu við Stofnun stjórnmála og stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þrátt fyrir það sem vel hefur verið gert og mörg málþing og fundi til að miðla faglegum leiðbeiningum og upplýsingum um góða stjórnsýsluhætti þá er enn á brattann að sækja hvað þessi atriði varðar.
Sem dæmi má nefna að síðastliðið haust hélt Félag forstöðumanna ríkisstofnana fjölmennt málþing um gildi faglegra vinnubragða við að sameina stofnanir en ríkisstjórnin hefur boðað verulega fækkun stofnana og stjórnsýslueininga með sameiningu þeirra á næstu misserum. Á málþinginu tók meðal annars til máls höfundur leiðbeiningarits fjármálaráðuneytisins um það hvernig standa beri faglega að sameiningu stofnana. Lagði hann mikla áherslu á grunnatriði eins og að gera frumathugun til að kanna hversu fýsilegt er að sameina stofnanir og skilgreina skýr markmið. Hann lagði einnig mikla áherslu á samráð við starfsmenn og forstöðumenn til að afla stuðnings og taka ákvörðun um sameiningu.
Þegar hafa verið lögð fram á þingi nokkur frumvörp sem tengjast áformum ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Því miður virðast sumir eða jafnvel margir sem þar standa að verki ekki fara eftir leiðbeiningum fjármálaráðuneytisins og í raun er ekkert samræmi í vinnubrögðum þegar skoðuð eru frumvörp sem þegar hafa verið lögð fram á Alþingi. Tekið er á stöðu og réttindum forstöðumanna þeirra stofnana sem í hlut eiga með afar mismunandi hætti í framangreindum frumvörpum og þar er að margra mati farið á svig við fagleg og samræmd vinnubrögð. Í sumum tilvikum er viðkomandi forstöðumanni/forstöðumönnum tryggður forgangur til starfa hjá nýrri/sameinaðri stofnun, jafnvel forgangur til forstöðumannsstarfa, meðan í öðrum tilvikum er ekki gert ráð fyrir slíku, hvorki forgangi til starfa né yfirhöfuð starfi hjá nýrri stofnun. Engin skýr svör koma fram um það í umræddum frumvörpum af hverju sú leið er valin sem valin er hverju sinni.
Það er mikilvægt að vinna hratt við að efla faglegan grundvöll stjórnsýslunnar á Íslandi. Þar er ekki síst mikilvægt að huga að því hvernig bæta megi samræmi í vinnubrögðum í stjórnsýslu á milli ráðuneyta.
Félag forstöðumenna ríkisstofnana mun áfram halda starfi sínu við umbætur í íslenskri stjórnsýslu og þar treystum við áfram á mikilvægt samstarf við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Við verðum einnig að halda áfram að trúa því að ef stjórnvöld gefa út leiðbeiningar eða reglur fyrir stjórnsýsluna þá sé ætlunin að fara eftir þeim og fylgja því eftir ef misbrestur verður á því.
Í áðurnefndir skýrslu starfshóps Gunnars Helga Kristinssonar segir að það þurfi að efla hinn faglega grundvöll stjórnsýslunnar meðal annars með því að tryggja faglegar ráðningar æðstu stjórnenda og þróa áherslur í starfsmannamálum þannig að hún veiti stjórnendum hæfilega umbun og aðhald. Þessum hugmyndum vil ég fagna sérstaklega. Því miður er staðan nú sú um þessar mundir að ekkert samhengi virðist á milli árangurs og umbunar þeirra forstöðumanna sem starfa hjá íslenska ríkinu. Þar virðast gilda óljós og mótsagnakennd viðmið þegar skoðuð er launaröðun forstöðumanna sem bætist við þá staðreynd að stjórnvöld á Íslandi hafa farið fram með afar harkalegum hætti varðandi laun forstöðumanna ríkisstofnana í kjölfar bankahrunsins. Laun hafa verið lækkuð einhliða með lagasetnum sem hefur hindrað Kjararáð í að sinna hlutverki sínu sem hlutlaus dómstóll um kjaramál stéttar sem ekki hefur samningsrétt. Við þessu er nauðsynlegt að bregðast og leiðrétta þarf sem allra fyrst það misrétti sem forstöðumenn hafa verið beittir. Að því þarf Félag forstöðumanna að vinna og í þeim tilgangi er stefnt að því á þessum fundi að velja fulltrúa í svokallaða starfskjaranefnd.
Áður en ég fel Sigrúnu Jóhannesdóttur forstjóra Persónuverndar fundarstjórnina vil ég þakka þeim Ástu Valdimarsdóttur, Stefáni Eiríkssyni, Gissuri Péturssyni, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, Magnúsi Skúlasyni og Rannveigu Guðmundsdóttir fyrir frábært samstarf í stjórn FFR. Einnig vil ég þakka þeim félagsmönnum sem hafa starfað í tveimur vinnunefndum um félagsaðild og kjara- og réttindamál og að lokum vil ég þakka Birni Karlsyni og Sigríði Björk Guðjónsdóttur en þau skipuðu uppstillingarnefnd í aðdraganda þessa aðalfundar vegna stjórnar og starfskjaranefndar.
Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir mig og þau góðu samskipti sem ég hef átt við ykkur síðastliðið ár sem formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana.
Fundarstjóri fer yfir dagskrárliði og skipar Ingibjörgu Guðmundsdóttur fundarritara.
2. Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ flutti erindi í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008. Sérstaklega fjallaði hún um ábyrgð og starfshætti stjórnsýslunnar. Sjá glærur Salvarar.
3. Skýrsla stjórnar um starfsemi síðastliðins starfsárs.
Magnús Guðmundsson rakti aðalatriðin í skýrslu stjórnar. Hana má sjá í heild á vef félagsins.
4. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
Gissur Pétursson gjaldkeri stjórnar gerði grein fyrir reikningum félagsins. Rekstrarniðurstaðan er tap sem nemur 298.149 kr. Niðurskurðarmessurnar hafa verið kostnaðarsamar. Félagið á tæplega 2,2 milljónir í sjóði. Reikningarnir voru samþykktir.
5. Lagabreytingar.
Ingibjörg Guðmundsdóttir rakti tillögur til breytinga á lögum félagsins. Þessar tillögur höfðu áður verið sendar félagsmönnum ásamt greinargerð. Ein breytingartillaga var gerð á fundinum og samþykkt. Hún var við nýja 7. grein laganna. Þar þótti rétt að taka fram að starfskjaranefnd er kosin til eins árs í senn eins og stjórn félagsins. Greinin verður þá:
7.gr Innan félagsins skal starfa sérstök þriggja manna starfskjaranefnd kosin til eins árs í senn. Hlutverk hennar er að gæta almennra kjaratengdra hagsmuna félagsmanna, m.a. annast almenn samskipti við Kjararáð, stjórnvöld og aðra þá aðila sem ákvarða starfskjör félagsmanna. Einn fulltrúi fyrrverandi forstöðumanna skal eiga sæti í starfskjaranefnd.
Lagabálkurinn var síðan samþykktur í heild sinni og tók þegar gildi.
6. Stjórnarkjör.
Björn Karsson formaður uppstillingarnefndar las upp tillögu nefndarinnar að stjórn félagsins:
Tillaga uppstillingarnefndar FFR 2010-2011
Undirrituð voru skipuð í uppstillingarnefnd, sem hefur það hlutverk að leggja fyrir aðalfund tillögu að skipan stjórnar FFR fyrir starfsárið 2010-2011. Í 7. grein laga félagsins segir ,,Stjórn félagsins skipa 5 menn kosnir til eins árs í senn. Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti. Jafnframt skulu kosnir 3 menn í varastjórn sem hafa sömu réttindi og skyldur og aðalmenn í forföllum þerra“.
Kannaður var hugur sitjandi stjórnarmeðlima til áframhaldandi stjórnarsetu og voru stjórnarmenn beðnir að svara því hvort þau hefðu áhuga á því að sitja áfram í stjórn FFR á næsta starfsári, eða hvort viðkomandi hefði hug á því að draga sig í hlé. Undanfarin ár hefur það verið regla að minnst einn eða tveir stjórnarmenn víki til að tryggja eðlilega endurnýjun í stjórn. Núverandi formaður kvaðst tilbúinn til að starfa áfram sem formaður félagsins. Tveir stjórnarmenn, Ingibjörg S. Guðmundsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, kváðust tilbúnar að stíga til hliðar til að tryggja eðlilega endurnýjun í stjórn.
Uppstillingarnefnd gerir það að tillögu sinni að Magnús Guðmundsson sinni áfram formennsku í félaginu. Einnig er lagt er til að tveir nýir komi inn í stjórn og vara-stjórn, þau Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaðurinn í Vík, og Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund.
Tillaga uppstillingarnefndar er eftirfarandi:
Stjórn:
Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga, sem gefur kost á sér til formanns.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins
Ásta Valdimarsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar
Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaðurinn í Vík
Varastjórn:
Magnús Skúlason, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Ingibjörg Sverrisdóttir, Landsbókavörður
Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund.
Virðingarfyllst,
Björn Karlsson, brunamálastjóri
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á Suðurnesjum
Ekki komu fram önnur framboð til stjórnar og var formaður sérstaklega og síðan stjórnin öll kjörin með lófataki.
Björn Karsson formaður uppstillingarnefndar las upp tillögu að starfskjaranefnd félagsins:
Formanni uppstillingarnefndar Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) hefur verið falið að gera tillögu að skipan Starfskjaranefndar FFR. Lagt var til að nefndin yrði skipuð tveim starfandi forstöðumönnum og einum fyrrverandi forstöðumanni.
Formaður uppstillingarnefndar FFR hefur óformlega haft samband við nokkurn fjölda félagsmanna og leitað tilnefninga.
Lagt er til að Starfskjaranefnd FFR verði skipuð þeim Steingrími Ara Arasyni, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóranum á Suðurnesjum og Magnúsi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Veðurstofu Íslands.
Tillaga þessi verður lögð fram á Aðalfundi FFR þriðjudag 11. maí 2010.
Virðingarfyllst,
Björn Karlsson
formaður uppstillingarnefndar FFR
Ekki komu fram önnur framboð til starfskjaranefndar og var tillagan samþykkt með lófataki.
7. Kosning tveggja endurskoðenda félagsreikninga og jafn marga til vara.
Gissur Pétursson gjaldkeri félagsins gerði það að tillögu sinni að sömu endurskoðendur yrðu áfram og var það samþykkt með lófataki. Endurskoðendur FFR eru Gestur Steinþórsson og Júlíus S. Ólafsson og varamenn þeirra Gunnar Karlsson og Þórður Ásgeirsson.
8. Ákvörðun árgjalds félagsmanna.
Gissur Pétursson gjaldkeri félagsins gerði tillögu um að félagsgjaldið yrði hækkað úr 5.000 kr í 6.000 kr og var það samþykkt.
Bent var á að rétt væri að fyrrverandi forstöðumenn greiddu lægra árgjald og var stjórn félagsins falið að ákveða það.
9. Önnur mál.
Magnús Guðmundsson nýendurkjörinn formaður FFR þakkaði traustið og lagði fram tvær tillögur að ályktunum og voru þær nokkuð ræddar. Fram komu örlitlar breytingatillögur. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar:
Ályktun
aðalfundar Félags forstöðumanna ríkisstofnana, 11. maí 2010,
um mikilvægi samráðs og faglegra vinnubragða
við sameiningu opinberra stofnana
Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana haldinn 11. maí 2010 minnir á mikilvægi þess að við endurskipulagningu á opinberri stjórnsýslu á Íslandi verði byggt á faglegum vinnubrögðum og að í einstökum ráðuneytum sé fylgt þeim leiðbeiningum sem fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun hafa þegar gefið út í þessum efnum.
Fyrirliggjandi eru áform ríkisstjórnarinnar um endurskipulagningu opinberrar þjónustu þar sem meðal annars er lagt til að ýmsar stofnanir verði sameinaðar. Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana áréttar að við tillögugerð og aðgerðir á þessu sviði sé unnið í nánu samstarfi við forstöðumenn og starfsmenn umræddra stofnana og eftir atvikum félög forstöðumanna ríkisstofnana. Jafnframt er lögð áhersla á að staðið sé að þessum málum með sambærilegum hætti á öllum sviðum t.d. þegar kemur að réttindum starfsmanna og þar með forstöðumanna til áframhaldandi starfa hjá sameinaðri og/eða nýrri stofnun.
Samþykkt á aðalfundi Félags forstöðumanna
á Grand Hótel í Reykjavík 11. maí 2010
Ályktun
aðalfundar Félags forstöðumanna ríkisstofnana, 11. maí 2010,
um ósamræmi í launakjörum forstöðumanna ríkisstofnana
í framhaldi af úrskurði kjararáðs um laun framkvæmdastjóra ríkisfyrirtækja
Kjararáð hefur á þessu ári kveðið upp úrskurði um launakjör aðila sem bættust í þann hóp sem undir kjararáð heyrir með lögum nr. 87/2009. Í úrskurði kjararáðs frá 23. febrúar 2010 er að finna almennar forsendur ákvarðana launa vegna þessa sem síðan eru ákveðin í hverju og einu tilviki í sérstökum úrskurði.
Við skoðun á framangreindum úrskurði kjararáðs má sjá að mikið misræmi hefur skapast í ákvörðunum kjararáðs á launum framangreinds hóps annars vegar og annarra forstöðumanna og embættismanna sem undir kjararáð heyra hinsvegar. Að þessu er raunar vikið í VII. kafla úrskurðar kjararáðs frá 23. febrúar 2010. Þar segir að til þess að laun þessa nýja hóps sem undir kjararáð var færður með lögum nr. 87/2009 lækki ekki óhóflega, sé óhjákvæmilegt við ákvörðun launa þeirra að víkja frá þeirri stefnu kjararáðs sem áður hafði verið mörkuð um að draga úr vægi eininga. Síðan segir: „Af því mun tímabundið ósamræmi hljótast á milli sumra þeirra sem hafa heyrt undir kjararáðs og þeirra sem við bætast.“
Alþingi ákvað með breytingum á lögum um kjararáð 20. desember 2008 að lækka laun þeirra sem undir kjararáð heyra um 5-15%. Þeirri kjaralækkun var viðhaldið með samþykkt Alþingis 21. desember 2009. Aðalfundur Félags forstöðumanna ríkisstofnana 2010 áréttar í þessu samhengi ályktun síðasta aðalfundar, þar sem framangreindri íhlutun í starfsemi kjararáðs var harðlega mótmælt. Á sama tíma hefur Alþingi falið kjararáði að ákvarða laun framkvæmdastjóra ríkisfyrirtækja með þeim hætti að ósamræmi hefur skapast í kjörum þeirra sem undir kjararáð heyra.
Það er mat Félags forstöðumanna ríkisstofnana að kjararáð þurfi nú þegar í samræmi við lög að taka á því ósamræmi sem nú er á kjörum þeirra sem undir kjararáð heyra og staðfest er af kjararáði sjálfu í framangreindum úrskurði. Lög standa ekki til þess að slíkt ósamræmi sé látið viðgangast.
Samþykkt á aðalfundi Félags forstöðumanna
á Grand Hótel í Reykjavík 11. maí 2010
Þessar ályktanir verða sendar m.a. á fjölmiðla, Alþingi, ráðuneytisstjóra og kjararáð.
Þórólfur Halldórsson hrósaði fráfarandi stjórn og óskar nýrri stjórn til hamingju. Hann vakti athygli að ekki er bara verið að sameina stofnanir heldur einnig að leggja niður. 20/20 sóknar-áætlunin mun hafa mikil áhrif á stofnanir ríkisins en þar er gert ráð fyrir stjórnsýslumiðstöðvum með margháttuð verkefni. FFR þarf að fylgjast náið með og hafa áhrif á það sem verður.
Fundarstjóri tekur undir þakkir til stjórnar og slítur fundi kl. 10:50.
Fundinn sátu 37 manns.
ngibjörg Guðmundsdóttir fundarritari.