Sameining og endurskipulagning ríkisstofnana

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Ríkisendurskoðun, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Félag stjórnsýslufræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála bjóða til morgunverðarfundar þriðjudaginn 19. nóvember á Grand hótel Reykjavík kl.  8:00-10:00.

Morgunverður frá kl. 8. Dagskrá hefst kl. 8:30

Sameining og endurskipulagning ríkisstofnana
Bestu aðferðir við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sameiningar og samþættingu mannauðs

Þátttökugjald kr. 4400,-, morgunverður innifalinn. Skráning HÉR

Á undanförnum árum hafa sameiningar stofnana átt sér stað á velflestum sviðum ríkiskerfisins.  Má þar t.d. nefna sameiningu ráðuneyta, skattstofa, heilbrigðisstofnana, háskóla og stofnana á sviði umhverfismála.  Mikil þekking og reynsla hefur byggst upp hjá stjórnendum, stjórnvöldum og eftirlitsaðilum hvernig best verði staðið að slíkri endurskipulagningu á starfsemi. Stjórnvöld hafa ákveðið að halda áfram á sömu braut og áforma að fækka opinberum stofnunum um 50 á næstu árum og að stofnanir með færri en 30 starfsmenn muni heyra til undantekninga.  Markmiðið er að einfalda ríkiskerfið og efla um leið starfsemi opinberra stofnana.   Á fundinum verður horft til bestu aðferða en einnig hvað beri að varast við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sameininga stofnana og samþættingu mannauðs.

Dagskrá

Á fundinum mun Sigurður Helgi Helgason, skrifstofustjóri skrifstofu stjórnunar og umbóta hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu m.a. fjalla um áform um sameiningar ríkisstofnana og hvernig staðið verði að undirbúningi og framkvæmd þeirra og stuðningi við forstöðumenn viðkomandi stofnana frá hendi stjórnarráðsins.  Sigurður Helgi starfaði áður sem ráðgjafi m.a. íslenskra stjórnvalda við endurskipulagningu á opinberri starfsemi. Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar ræðir hvaða lærdóm má draga af úttektum stofnunarinnar um sameiningu stofnana.  Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins mun fjalla um þá áskorun að sameina heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið í eitt ráðuneyti velferðarráðuneytið og Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri ræðir árangurríka sameiningu embætta ríkisskattstjóra og níu skattstjóra víða um land í eitt, embætti ríkisskattstjóra þar sem aðferðir mannauðsstjórnunar voru lykillinn að árangri.

Print Friendly, PDF & Email