Lög Félags forstöðumanna ríkisstofnana

 

 1. gr.

Félagið heitir: Félag forstöðumanna ríkisstofnana, skammstafað FFR. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

 1. gr.

Tilgangur félagsins er:

 • að efla kynni félagsmanna
 • að stuðla að samstarfi félagsmanna og stofnana eftir því sem við á
 • að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna almennt, þar með talið kjaramálum þeirra
 • að vera tengiliður og samstarfsaðili við stjórnvöld varðandi gagnkvæm málefni félagsmanna og stofnana
 • að efla kynningu félagsmanna á stofnunum hvers annars
 • að stuðla að fræðslustarfi meðal félagsmanna
 • að eiga samráð við viðkomandi ráðuneyti um forsendur grunnmats starfa forstöðumanna, annarra launa og viðbótarlauna, sem og starfskjör
 • að óska eftir endurmati á launum og starfskjörum forstöðumanna vegna breytinga á launum í þjóðfélaginu eða breytinga á einstökum störfum
 • að fylgjast með og fjalla um álitamál sem upp kunna að koma fyrir hönd forstöðumanna og standa straum af kostnaði vegna þeirra í samræmi við starfsreglur stjórnar varðandi nýtingu fjármuna félagsins
 • að sinna lögbundnu hlutverki samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

 

 1. gr.

Allir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem fá laun samkvæmt grunnlaunaflokkun eða samkvæmt ákvörðun stjórnar ríkisstofnunar eða ríkisfyrirtækis, sbr. 39. gr. a laga nr. 70/1996, eru félagsmenn í félaginu nema þeir óski að standa utan þess.

Forstöðumenn samnorrænna eða alþjóðlegra stofnana, sem starfa hér á landi geta orðið félagsmenn enda sé það samþykkt af stjórn félagsins.

 

 1. gr.

Þegar nýr forstöðumaður tekur við starfi sem hann hefur verið skipaður, settur eða ráðinn til, skal stjórn félagsins senda honum upplýsingar um félagið, lög þess og starfsemi. Óski nýr forstöðumaður ekki eftir því innan eins mánaðar frá sendingu slíkra upplýsinga að standa utan félagsins, er hann talinn fullgildur félagsmaður.

 

 1. gr.

Félagsaðild lýkur þegar félagsmaður lætur af starfi forstöðumanns enda óski hann ekki áframhaldandi aðildar.

Óski fyrrverandi forstöðumaður að vera áfram félagsmaður FFR skal hann senda stjórn félagsins bréf þess efnis. Fallist stjórn á umsókn skal fyrrverandi forstöðumaður njóta réttinda innan félagsins, annarra en kosningarétt og kjörgengi til stjórnar, í samræmi við reglur sem stjórn setur. Heimilt er á aðalfundi að ákveða lægri árgjöld fyrir fyrrverandi forstöðumenn.

Vilji félagsmaður ganga úr félaginu, skal úrsögn hans vera skrifleg og send félagsstjórn.

Félagsmaður missir rétt til aðildar greiði hann ekki félagsgjald, sbr. 7. tl. 9. gr. Stjórn félagsins ákveður tímafresti og önnur ákvæði er varða félagslok af þessum ástæðum.

 1. gr.

Stjórn félagsins skipa 7 menn. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur, sem eru sex talsins, eru einnig kosnir til tveggja ára í senn en kosið er um þrjá meðstjórnendur á hverju ári. Stjórnarmenn geta setið tvö kjörtímabil samfellt og geta gefið kost á sér á ný eftir tveggja ára hlé. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti.

Stjórn félagsins skal annast málefni þess milli aðalfunda og getur hún skipað félagsmenn sér til aðstoðar ef þurfa þykir.

Formaður boðar reglulega til stjórnarfunda, en að auki getur hver stjórnarmaður krafist stjórnarfundar.

Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

 

 1. gr.

Innan félagsins skal starfa sérstök þriggja manna kjörnefnd sem óskar eftir og tekur við framboðum til stjórnarsetu og stjórnar kosningu meðal félagsmanna. Kjörnefnd setur verklagsreglur varðandi framboð til stjórnarsetu og framkvæmd stjórnarkjörs. Verklagsreglur skulu samþykktar af stjórn eftir kynningu á almennum félagsfundi.

 

 1. gr.

Kosning stjórnar og kjörnefndar fer fram á aðalfundi. Aðalfundur skal auglýstur á tryggilegan hátt með a.m.k. 14 daga fyrirvara. Tillögu um lagabreytingar skal geta í fundarboði.

 

 1. gr.

Aðalfund skal halda fyrir lok maímánaðar ár hvert. Verkefni hans eru:

 1. Skýrsla stjórnar um starfsemi síðastliðið starfsár.
 2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
 3. Lagabreytingar.
 4. Stjórnarkjör.
 5. Kosning kjörnefndar.
 6. Kosning tveggja endurskoðenda félagsreikninga og jafnmargra til vara.
 7. Ákveða árgjald félagsmanna.
 8. Önnur mál.

 

 1. gr.

Stjórnin boðar til almennra félagsfunda þegar þurfa þykir. Skylt er að boða til félagsfundar þegar a.m.k. 20 félagsmenn krefjast þess.

 

 1. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að ráða starfsmann og ákveður starfskjör hans.

Starfsmaður skal m.a. sjá um daglegan rekstur félagsins í samræmi við samþykktar verklagsreglur.  Hann skal hafa umsjón með vinnu vegna forsendna grunnmats, annarra launa og viðbótarlauna forstöðumanna og aðstoða félagsmenn í álitamálum varðandi kjör þeirra. Starfsmaður skal undirbúa stjórnarfundi með formanni félagsins, skipuleggja fræðslufundi og félagsfundi, veita almenna upplýsingagjöf og halda utan um réttindi félagsmanna.

 

 1. gr.

Reikningsár félagsins skal vera frá 1. maí til 30. apríl.

 

 1. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar eigi síðar en fjórum vikum áður en aðalfundur er haldinn.

Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega framkomna tillögu til lagabreytinga, enda feli breytingartillögur ekki í sér óskylt efni við upprunalegu tillögurnar. Til þess að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á lögum þessum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin gengur í gildi.

 

 1. gr.

Komi fram tillaga um að leysa félagið upp verður hún eigi tekin til greina nema hún sé studd 1/4 félagsmanna, og skal þá höfð um hana allsherjaratkvæðagreiðsla. Tillaga telst því aðeins samþykkt að hún hljóti 2/3 greiddra atkvæða.

 

 1. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt á stofnfundi félagsins 27. nóvember 1986

Breytingar á aðalfundum 27. maí 1988, 16.mars 1992, 28. maí 1999,  11. maí 2010 og framhaldsaðalfundi 16. febrúar 2018.