Nýtt vinnuumhverfi forstöðumanna – fundur með fjármála- og efnahagsráðherra og KMR 11. maí 2017

Félag forstöðumanna ríkisstofnana kynnir morgunverðarfund:

Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) heldur fundinn í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneyti (FJR). Einstaka fulltrúum ráðuneyta verður einnig boðið á hann. Helsta umfjöllunarefni fundarins verða þær breytingar á starfsumhverfi forstöðumanna sem eru í vændum vegna breyttra laga um kjararáð, en einnig mun fjármála- og efnahagsráðherra fjalla um fjármálaáætlun 2018-2022.

Morgunverðarfundur fimmtudaginn 11. maí 2017, kl. 8:30, á Grand hótel Reykjavík. Þátttaka á fundinum er ókeypis. Fyrir fundinn, kl. 8:00, býður FFR fundarmönnum upp á morgunverð.

Frummælendur verða Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri Kjara og mannauðssýslu FJR og Björn Karlsson formaður FFR. Fundarstjóri er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, Landsbókavörður.

Skrá á morgunverðarfund hér.

Dagskrá:
8:00-8:30     Morgunverður.
8:30-8:55     Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra fjallar um Fjármálaáætlun 2018-2022 og sína sýn á breytt starfsumhverfi forstöðumanna.
8:55-9:20     Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu FJR, fjallar um umgjörðina og hlutverk einstakra aðila til framtíðar í breyttu vinnuumhverfi forstöðumanna.
9:20-09:45   Björn Karlsson, formaður FFR, fjallar um þá vinnu sem farið hefur fram undanfarna mánuði varðandi væntanlegar breytingar á vinnuumhverfi forstöðumanna í samstarfi við KMR.
9:45-10:00   Umræður

Hægt verður að fylgjast með upptökum af fundinum í beinni útsendingu á YouTube. Slóðin er https://www.youtube.com/watch?v=Inavs07SkLs

Bakgrunnur þessa málefnis er sá að þann 22. desember s.l. samþykkti Alþingi breytingu á lögum um kjararáð sem hafa þau áhrif að umsýsla með starfskjörum flestra forstöðumanna ríkisstofnana færist frá kjararáði til miðlægrar stjórnsýslueiningar og að unnið verði nýtt og gegnsætt verklag vegna launasetningar og starfsþróunar forstöðumanna. Lögin taka gildi 1. júlí en unnið hefur verið að því að þróa nýtt verklag varðandi fyrirkomulag ráðningarmála, launaákvarðana, frammistöðumats, starfsþróunar, hreyfanleika og starfsloka forstöðumanna. FFR réði Guðrúnu Ragnarsdóttur hjá Strategíu sem ráðgjafa í þessu verkefni og hafa vikulegir fundir verið haldnir síðan í desember með fulltrúum FFR og FJR (Kjara og mannauðssýslu og Skrifstofu stjórnunar og umbóta).

Þann 1. febrúar síðastliðinn var haldinn félagsfundur FFR þar sem starfskjaramál forstöðumanna voru til umræðu. Félagsmönnum á fundinum var skipt í hópa og rætt var um ákveðin grundvallaratriði varðandi starfskjaramál. Sett var upp sérstakt svæði á vefsíðu FFR, www.ffr.is þar sem hægt er að nálgast ýmiskonar upplýsingar um málið, þar með talið samantekt af fundinum sem haldinn var 1. febrúar.

Stjórn FFR hvetur alla félagsmenn til að mæta á morgunverðarfundinn 11. maí og kynna sér þetta mikilvæga málefni.

 

Print Friendly, PDF & Email